145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[19:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú verðum við að vísu að hafa einhverja trú á sjálfum okkur og þeim sem taka við keflinu. Ég hef borið þá von í brjósti að eitthvað hafi menn lært af þessum ósköpum á Íslandi og verði almennt varkárari og ábyrgari í sinni framgöngu þó ég neiti því ekki að stundum verður mér órótt þessa dagana, svitna svolítið yfir því að við séum aðeins að byrja að slakna aftur þegar ég horfi á það hvað fjármálaráðherra er útbær á tekjustofna ríkisins. En það er nú önnur saga.

Varðandi sveitarfélögin þá ber að hafa í huga að fjármálareglurnar sem lögfestar voru 2011 voru auðvitað undanfari. Sveitarfélögin eru í annarri stöðu vegna þess að þau eru þegar bundin af þeim og það er þar af leiðandi kannski ekki svo mikil fórn af þeirra hálfu á fjármálalegu sjálfstæði sínu að ganga inn undir þennan ramma sem hluta af hinni opinberu heild. Það er mjög mikilvægt, ég er algjörlega sammála því að við verðum að skoða hið opinbera í heild og reyndar held ég að við séum of upptekin af því að gera mikinn greinarmun á því hvar tekjunum er ráðstafað. Þær eru allar í þágu samfélagsins og sveitarfélögin eru eins og ég segi með um einn þriðja af þeirri veltu.

Ég held líka að það séu svolitlar villigötur að vera óskaplega upptekin af svokölluðu fjarmálalegu sjálfstæði sveitarfélaganna, sum hver eru það eða sveitarstjórnarmenn, þegar haft er í huga að það er ríkið, það er löggjafinn sem markar rammann, setur lögin um tekjuöflunina og skiptinguna og að við erum bara að tala um hið opinbera á Íslandi. Ég er með öðrum orðum orðinn þeirrar skoðunar að danska fyrirkomulagið eða eitthvað mjög nálægt því sé kannski gáfulegast, að menn bara sitji saman eins og menn árlega og fari yfir það hvernig við spilum best úr spilunum í þágu samfélagsins í heild og dreifum tekjum og jöfnum byrðum (Forseti hringir.) milli ríkis og sveitarfélaga þannig að þetta gangi allt saman sem best upp.