145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[19:17]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það sem hefur komið hér fram. Ég ætla ekki að koma hingað upp til að lengja umræðuna og segi það af því að ég meina það. En mig langar að varpa fram nokkrum spurningum í kjölfar þessarar umræðu. Í ljósi þess að í morgun áttum við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fund með umboðsmanni Alþingis þá langar mig að fá það fram hjá hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki tryggt í þessu frumvarpi eins og er í dag að hugað sé að fjárveitingum til umboðsmanns Alþingis og annarra eftirlitsstofnana sem eru undir þinginu af því að nú er verið að breyta öllum þessum praxís varðandi það hvernig fjárlagafrumvarpið kemur fram.

Svo langar mig að taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um að festa í lagatextann einhver ákvæði sem stuðla að því að styrkja þingið og skrifstofu þingsins þegar kemur að því að vinna með allar þær upplýsingar sem fram koma. Ég held að það væri til bóta að það yrði sett með skýrum hætti í lagatextann.

Mér finnst líka ástæða til að bregðast við því sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir ræddi um áðan varðandi hvernig við bregðumst við ýmsum frávikum sem upp koma í þessu samfélagi. Ég hef skilið þetta frumvarp þannig að það eigi að ýta undir stöðugleika og þá þannig að framleiðni standi undir þeim framförum sem þurfa að eiga sér stað á hverjum tíma. Þannig getum við horft fram á það að einhvern tíma í framtíðinni sem mun koma, sama hvort sem okkur líkar það betur eða verr, verði stjórnmálafólk ekki fyrir þeim sama þrýstingi og kemur oft frá hinum ýmsu hagsmunahópum og málum sem koma upp hverju sinni. Við séum þá betur í stakk búin til að gera áætlanir til lengri tíma sem hafi jákvæða áhrif almennt á alla hagstjórn hér. Ég fagna því mjög og þingflokkur Bjartrar framtíðar sem slíkur að verið sé að horfa til lengri tíma og gera áætlanir því það er nú einu sinni með framtíðina að einhvern tíma verður hún nútíðin og mér hefur fundist öll hagstjórn ráðast í allt of miklum mæli, eins og komið hefur fram hér í dag, og mun meira af tilviljunum og tilfinningum en kannski sterkum áætlunum fram í tímann þar sem ákvarðanir eru teknar út frá því hvaða áhrif þær geti haft til framtíðar en ekki akkúrat á stöðuna eins og hún er í dag, undir þeim þrýstingi sem eilíflega er verið að beita úr öllum áttum.