145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei fullyrt það sjálfur að hægri menn eða vinstri menn séu almennt ábyrgari eða óábyrgari í fjármálum en hinir. Mér finnst spurningin miklu flóknari en svo. Mér þykir það oft fara eftir árferði eða hreinlega umræðuefni hvort þær hugsjónir sem eru kallaðar vinstri henti betur eða þær hugsjónir sem eru kallaðar hægri. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég verð oft hratt ringlaður þegar kemur að þeim tiltekna ási.

Ég veit að hv. þingmaður getur ekki svarað því á tveimur mínútum en ég velti fyrir mér hvað hann telji við hæfi að reyna til að ná þessum markmiðum. Allir virðast vera sammála um markmiðin og hvernig eigum við að ná þeim ef ekki með lagasetningu sem gefur okkur færi á því að hafa langtímaáætlun? Í þessu frumvarp kemur fram að þetta eigi að vera langtímaáætlun og markmiðið með því er auðvitað að hægt sé að ræða málin svolítið fram í tímann og þar af leiðandi takast á við þær spurningar sem plaga hv. þingmann og vissulega miklu fleiri um samfélagslegt hlutverk o.s.frv. Getur hv. þingmaður útskýrt á tveimur mínútum þær hugmyndir sem hann hefur, mundi hann ekki nota lagasetningu, mundi hann ekki nota eitthvert þinglegt ferli? Er ekki gott að hafa einhvern lagaramma utan um það hvernig við ætlum að haga þessum málum?