145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með fullri virðingu fyrir hæstv. fjármálaráðherra og með fullri virðingu fyrir ívitnuðum sveitarstjórnarmanni sem telur að lagaramminn hafi stuðlað að gerbreyttum vinnubrögðum hjá sveitarstjórnarstiginu þá leyfi ég mér að efast um að þetta sé alveg rétt. Ég held hins vegar að umræðan sem tengist þessu máli og þessum lögum, sem ég átti hlut að sjálfur enda flutti ég frumvarpið breytt frá upphaflegri mynd, eins og ég nefndi, þar sem upphaflega var talað um 90% skuldaþak, umræðan sem hefur farið fram í þjóðfélaginu breytti viðhorfum. Það breytti líka viðhorfunum að horfa til þess að sum sveitarfélög höfðu skuldsett sig hættulega mikið og voru orðin baggi á íbúunum, á eigendum sínum, og það þurfti að grípa til róttækra breytinga.

Við höfum líka lært og sveitarstjórnarmenn hafa lært af biturri reynslu að það borgar sig ekki að selja allar eignir sínar, húsnæði sitt og leigja síðan af sjálfum sér aftur. Þetta er bitur reynsla sem menn hafa lært án þess að það sé sett sérstaklega í lög. Það er þetta sem hefur gerst á Íslandi. Sem betur fer hefur hrunið þó kennt okkur þetta og auðvitað er það skylda okkar og hlutverk að halda þessari umræðu gangandi öllum stundum. Það er alveg sama hvað við setjum í lög, ef við höfum ekki hugarfarið rétt hvað þetta snertir munum við vaða út í ógöngur fyrr en varir.

Eitt langar mig til að nefna sem fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra áðan og ég vil gera athugasemd við. Hann sagði: „Við megum ekki gefa framkvæmdarvaldinu sjálfdæmi um hvert eigi að fara (Forseti hringir.) og þessi lög munu koma í veg fyrir það.“ Það hefur aldrei staðið til að gefa framkvæmdarvaldinu sjálfdæmi. Framkvæmdarvaldið á og hefur þurft (Forseti hringir.) að fara eftir þeim fjárlögum sem sett eru. Spurningin sem við erum að fást við er á hvaða forsendum við eigum að smíða þessi fjárlög.