145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem við erum í raun og veru að ræða um hér er spurningin um það hvort við höfum safnað upp nægilega mikilli reynslu í gegnum tíðina til að geta verið almennt sammála um hvað þurfi að gerast í opinberum fjármálum og þar af leiðandi verið laus undan því að þurfa að fara að lögfesta einhverjar sérstakar reglur í því efni, eða hvort sú uppsafnaða reynsla er mögulega ekki nægjanleg ein og sér til að tryggja að við munum ávallt taka skynsamlegar ákvarðanir. Mín skoðun er sú að það er tímabært. Það er fullt tilefni með vísan til sögunnar til að láta á það reyna á þinginu hvort menn geta verið sammála um ákveðin grundvallarviðmið varðandi langtímastefnumörkun í opinberum fjármálum sem ávallt verða höfð til hliðsjónar þegar menn kynna til sögunnar langtímaáætlanir sínar og fjárlög hvers árs, til þess að þau séu þarna fyrir okkur í lögum til að horfa til og þau verka þannig eins og mælistika á það hvort fjárlög hvers árs og áætlanir til lengri tíma standast þau viðmið sem við höfum þannig sett saman. Þetta er það sem margir aðrir hafa gert.

Þeir sem hafa áhyggjur af því að setja slíkar reglur, eins og hv. þingmaður gerir hér grein fyrir, virðast ganga út frá því að þær muni við sérstakar kringumstæður mögulega reynast okkur of erfiðar og þær muni þannig kalla fram viðbrögð sem eru óæskileg fyrir samfélagið í heild. Svo dæmi sé tekið væri það eitthvað sem gæti gerst í hinum smærri byggðum eða á velferðarsviðinu einhvers staðar annars staðar. En þá er ég hingað mættur til að vekja athygli á því að þetta eru þrátt fyrir allt viðmiðunarreglur. Þetta eru ekki refsilög. Við erum ekki að setja þetta inn í almenn hegningarlög. (Forseti hringir.) Við erum að láta á það reyna hvort við getum verið sammála (Forseti hringir.) um ákveðin meginmarkmið og ef hér skapast ekki meiri hluti fyrir því að fylgja þeim reglum er enginn kominn til með að segja að alþingismenn eða einstakir ráðherrar verði eltir uppi og fangelsaðir. (Forseti hringir.) Það verður hins vegar ávallt hægt að setja þessa mælistiku á þá framkvæmd sem er í gangi hverju sinni og maður verður að þola þá umræðu. Það er í raun og veru það eina sem gerist.