145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[21:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar ekki að lengja þessa umræðu mikið en það eru nokkrar greinar í þessu frumvarpi sem mér finnst þess virði að ræða strax á þessu stigi. Mikið af því hefur þegar verið rætt, meðal annars í andsvörum, en mig langar að impra aðeins á nokkrum punktum.

Í fyrsta lagi er það 6. gr. sem fjallar um grunngildin en þau eru fimm talsins, þ.e. sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi; allt góð og falleg gildi eins og farið hefur verið inn á. En mig langar til að leggja til að sjötta gildinu verði bætt við sem yrði forsjálni. Ástæðan fyrir því er sú að mér þykir ekki skynsamlegt til lengri tíma hversu bjartsýnt fólk er almennt, og sér í lagi þingmenn og þeir sem hafa áhrif þegar þeir tala, gagnvart hugsanlegum skakkaföllum í framtíðinni. Ég er þeirrar skoðunar sjálfur að efnahagshrun, og í það minnsta kreppur og krísur, sé að ákveðnu leyti óhjákvæmilegt, óhjákvæmileg afleiðing þess að framtíðin er óþekkt. Í mjög breytilegum heimi, þar sem fjárfestingar byggja á óþekktum stærðum um óþekktan tíma er það einungis tímaspursmál hvenær mjög alvarlegar efnahagskrísur verða.

Ég tel meira að segja að þetta verði algengara í framtíðinni. Eftir því sem tækniframþróun fer hraðar verður sífellt erfiðara að spá fyrir um það hvernig nýjasta tækni eða nýjustu hugmyndir munu raungerast í framtíðinni. Gott dæmi er hin svokallaða dot.com-bóla sem sprakk rétt eftir aldamót. Þá var vandinn sá að menn höfðu gert fjárfestingar byggðar á væntingum sem þeir skildu ekki. Það gerist reglulega. Það færist í vöxt. Það er alltaf verið að finna upp ný og ný tæki. Það koma þrívíddarprentarar og drónar og guð má vita það. Menn þekkja ekki fyrir fram hvaða raunveruleg verðmæti liggja að baki í þessari tækni þannig að þeir fjárfesta að einhverju leyti í blindni. Af þessu leiðir regluleg bólumyndun og óhjákvæmilegt að slíkar bólur springi.

Með hliðsjón af þessu tel ég ábyrga efnahagsstjórn að miklu leyti felast í því, og í ríkari mæli með tímanum, að gera ráð fyrir efnahagsskakkaföllum. Frekar en einblína á að forðast þau, sem við eigum auðvitað líka að gera, verðum við að horfast í augu við það að við þekkjum ekki framtíðina. Við skiljum ekki og munum aldrei skilja hverjar af væntingum okkar gagnvart framtíðinni eru raunhæfar, og sér í lagi meðal fjárfesta. Mér þykir mikilvægt að búið sé í haginn áður en skakkaföllin dynja yfir. Nóg um það í bili.

Mikið hefur verið rætt um 7. gr. frumvarpsins er varðar skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar en án þess að farið sé nákvæmlega út í prósenturnar þar þá er samhengi milli 7. gr. og 10. gr. 10. gr. fjallar um endurskoðun fjármálastefnu við efnahagsáföll, þjóðarvá eða aðrar aðstæður sem ógerlegt er að bregðast við með tilteknum úrræðum.

10. gr. var hugsuð fyrir mjög alvarleg skakkaföll og það er hluti af orðræðu áhrifafólks að gera lítið úr hugsanlega fyrirsjáanlegum skakkaföllum. Þar af leiðandi óttast ég að aldrei yrði gripið til 10. gr. fyrr en það væri orðið of seint. Aldrei yrði farið út í það fyrr en eitthvað væri þegar skollið á. Með hliðsjón af því þykir mér vel líklegt að það gæti verið skynsamlegt að milda aðeins markmiðin í 7. gr. Ég treysti reyndar hv. fjárlaganefnd ágætlega til að skoða það rækilega og vissulega getum við skoðað það betur við 2. umr. En þetta samhengi og tilhneiging áhrifamanna til bjartsýni, til að styggja ekki markaðinn, gerir að verkum að mér finnst að við förum hóflega í markmiðum okkar. Ef markmiðin eru óraunhæf þá hef ég áhyggjur af því að það verði lenska að spá rangt og það verði hluti af hefðinni sem myndast, sambærilegt við þá sem við höfum samkvæmt fjárlögum núna. Við gerum svolítið ráð fyrir því að stofnanir fari fram úr fjárlögum og svo rífast menn um hvar ábyrgðin sé og jafnvel þegar menn komast að því hvar hún liggur þá breytist ekkert. Þetta frumvarp er vitaskuld að miklu leyti lagt fram til að gera bragarbót á því vandamáli. En það er mikilvægt hvernig hefðin þróast um það hvaða markmið nást og hver ekki. Mér þykir ekki gott ef þróunin verður strax sú að markmiðin náist ekki og því mikilvægt að markmiðin séu raunhæf frekar en farið sé of geyst þar.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði hér áðan að þetta séu ekki refsilög, þetta séu viðmið og það er rétt. Það er eðli þessa frumvarps og væntanlegra laga að þetta er ekki refsilöggjöf. Þess heldur er mikilvægt að markmiðin séu raunhæf og sú hefð myndist strax að standa við gefin markmið.

9. gr. í frumvarpinu fjallar um skýrslu um langtímahorfur sem skal leggja fram á minnst þriggja ára fresti. Mig langar að leggja það til að það gæti verið skynsamlegt að leggja slíka skýrslu fram oftar þar sem heimsmyndin breytist hraðar. Sem dæmi væri núna gott að hafa skýrari sýn á það hvaða áhrif niðursveifla í kínverska hagkerfinu hefur á innkaup okkar eða útflutning. Það væri mjög gott ef slíkt lægi fyrir þegar það gerist. Það eru nokkrir stórir hlutir í heimshagkerfinu sem við vitum að skipta verulegu máli, til dæmis ef það er samdráttur í Rússlandi eða eitthvað því um líkt eða, eins og kom nú nýlega fyrir, að farið verði út í viðskiptaþvinganir. Það er ágætt að við sjáum fyrir fram hvaða áhrif slíkt hefur. Við getum ekki spáð fyrir um allt en við getum spáð fyrir um sumt og ég held að það sé til bóta að hafa það í huga. Heimurinn breytist hratt og hraðar og hraðar, held ég, þannig að ég legg til að það gæti verið skynsamlegt að hafa svona skýrslu oftar en á þriggja ára fresti, hugsanlega á hverju ári; kannski bara á tveggja ára fresti, það gæti hugsanlega dugað. Það er eitthvað sem mér þætti vænt um að hv. nefnd mundi ræða.

Það er í samhengi við ársfjórðungsskýrsluna sem er í 12. gr. Ég nefni hana nú einungis í samhengi við 9. gr. en þar er kveðið á um ársfjórðungsskýrslu um opinber fjármál sem skal liggja fyrir innan átta vikna frá lokum hvers ársfjórðungs. Mér þykir það ákvæði mjög gott og ég held að það muni bæta umræðuna til muna.

Þá er það 13. gr. frumvarpsins sem fjallar um fjármálaráð. Ég hef lítið um það að segja nema ég vil taka undir þær hugmyndir að þetta verði aðeins fjölskipaðra ráð. Ég hvái líka pínulítið, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, yfir þessum hæfisskilyrðum formannsins. Við búum í mjög litlu samfélagi og mér finns það áhugaverð spurning hvaða einstaklingar kæmu til greina í slíka stöðu með menntun á þessu tiltekna sviði. Ég er kannski ekki alveg jafn tortrygginn út í það og hv. þm. Ögmundur Jónasson en mér þykir spurningin réttmæt og áhugaverð.

16. gr. er sú síðasta sem ég ætla að fjalla um að sinni en hún varðar framsetningu fjárlaga. Í hvert sinn sem við höfum rætt fjárlög hér, þann tíma sem ég hef verið á þingi, þá kemur framsetning fjárlaga til umræðu. Við sem erum meira tölvuþenkjandi, kannski sér í lagi nýir þingmenn, hváum oft yfir framsetningu fjárlaga; hún getur verið ruglingsleg og það getur verið erfitt að finna hratt einhver gögn. Það kemur reglulega fyrir að eitthvað sem er óskýrt, ónákvæmt og villandi birtist jafnvel í fjölmiðlum vegna þess að það er erfitt að skoða málin hratt og gaumgæfilega. Það er ýmislegt í framsetningu fjárlaga sem má laga og enginn hefur mótmælt því svo að ég viti. Ég hef aldrei heyrt neinn koma hingað í pontu og segja að framsetning fjárlaga sé í góðu lagi. Það er vegna þess að hún gæti verið svo miklu betri. Það væri að mínu mati mjög hentugt, gríðarlega hentugt, ef fjárlög væru birt á tölvutæku formi og í samhengi við fyrri fjárlög þannig að maður sæi breytingar á raunstærðum, breytingar á tölum í samhengi við margar vísitölur ekki bara eina vísitölu heldur neysluverðsvísitölu, launavísitölu, jafnvel húsnæðisvísitölu; að birta slíkt á tölvutæku formi mundi eitt og sér bæta heilmikið vegna þess að þá fer fólk út í bæ og fyrirtæki sem hafa áhuga á þessu eða stofnanir, rannsóknasetur, háskólar o.s.frv., að skoða þessi gögn og vinna úr þeim. Og þó að alþingismenn skilji ekki endilega tölvutæk gögn þá er það ekki markmiðið heldur er markmiðið að búa til gögn sem aðrir geta búið til og sett fram á skýrari hátt í fallegum kökuritum með litum o.s.frv.

Það er ekki fleira sem ég ætla að ræða að þessu sinni. Mér þykir þetta frumvarp mjög til bóta eða það sem ég þekki af því nú þegar. Ég hlakka til að sjá nefndarálit, sem ég vona nú að verði eitt en geri fastlega ráð fyrir að verði tvö, og ég hlakka til 2. umr.