145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost í gærkvöldi að sitja fjölmennan fund ungs fólks þar sem ungir jafnaðarmenn kynntu starfsemi sína. Það sem mér fannst athyglisvert og finnst eiga erindi hér í þingsal eru áhyggjurnar sem ég skynjaði hjá því unga fólki sem þar var; af framtíð á Íslandi, af því hvort samkeppnishæf störf mundu bjóðast hér, áhyggjurnar sem fylgja því þegar við sjáum fréttir í fjölmiðlum af vaxandi atvinnuleysi langskólagengins fólks og landflótta og áhyggjur sem fylgja því að lífskjör séu ekki sambærileg hér eftir nám við það sem gerist í nágrannalöndunum.

Úr þessum ræðustól er oft talað um landbúnað og sjávarútveg sem grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar. En sama hversu vel mun ganga í þeim atvinnugreinum, í fyrirsjáanlegri framtíð mun hvorug þeirra standa undir hálaunastörfum. Vöxturinn í ferðaþjónustu er að yfirgnæfandi leyti í störfum sem eru illa borguð. Jafnvel þó að við kjósum að veðja alfarið á stóriðju það sem eftir er munum við ekki finna þar vel launuð störf fyrir unga fólkið okkar.

Ég held þess vegna að það sé mikilvægasta verkefni okkar á Alþingi að sameinast um sóknarstefnu fyrir þekkingu í landinu, bjóða velkomna erlenda frumkvöðla, opna landið fyrir þekkingarstarfsemi og breyta skattkerfi og öllu stoðkerfi þannig að það styðji við þekkingarstarfsemi. Og í staðinn fyrir að ráðast í handahófskenndar skattalækkanir ættum við að lækka tryggingagjald til að auðvelda fyrirtækjum að fjölga fólki og styðja við þekkingariðnað. Þannig mætti lengi telja. Við ættum að stuðla að því að menntakerfið okkar styðji áfram við frumkvöðlastarfsemi, en verði ekki skemmt, eins og nú er stefnt að af hálfu menntamálaráðherra með því að breyta því í hraðbraut fyrir þá sem fyrir stóðu best að vígi í menntakerfinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna