145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að stjórnmál eru dauðans alvara í vissum tilvikum. Þau eru dauðans alvara þegar börn falla á Vesturbakkanum eða Gaza, þegar einn öflugasti her í heimi ræðst þangað inn reglubundið eða rænir landi af foreldrum þeirra á hernumdu svæðunum. Svo er það fróðleg kenning að innkaup Reykjavíkurborgar séu ekki á hennar yfirráðasviði og það sé farið út fyrir valdmörk með því að borgin vilji setja siðferðislega mælikvarða á sín innkaup.

Ég ætlaði að ræða hér aðeins, virðulegur forseti, að öðru leyti þá furðulegu uppákomu sem varð á dögunum þegar upplýst var um það að tveir ráðherrar Framsóknarflokksins hefðu gengið frá tollasamningi við Evrópusambandið án þess svo mikið sem tala við bændur einu orði, hefur þó samningurinn verulega röskun í för með sér á starfsskilyrðum a.m.k. þriggja búgreina. Þetta er auðvitað stórfurðuleg uppákoma.

Þó að menn kunni að segja að það opnist möguleikar til útflutnings á móti þá eru það aðrar greinar sem mundu fyrst og fremst njóta þess eins og sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla, þ.e. lambakjöt og skyr sem kannski eru einhverjir raunhæfir möguleikar á að flytja út í auknum mæli. En þetta er þungt högg á nautakjötsframleiðsluna til dæmis og verður ekki annað séð en að verið sé að útvista verulegum hluta hennar með þessu, það sé bara stefna ríkisstjórnarinnar að það sé framleitt í útlöndum. Sama gildir um svínabændur og kjúklingabændur; svínabændur eru að jafna sig eftir mjög kostnaðarsamt verkfall. Báðar þessar greinar taka á sig auknar kröfur vegna hertra reglna um aðbúnað að dýrum, sem í sjálfu sér er gott upp á dýravelferð, en þær þurfa að gera það án nokkurs stuðning frá stjórnvöldum hér og eiga þá að fara í samkeppni við greinar sem fá stuðning í sambærilegum tilvikum erlendis.

Mér finnst þetta stórfurðuleg uppákoma og það þarf að fara yfir þetta. Mest undrar mig að þetta skuli gert áður en gengið er frá búvörusamningi á heildstæðum grundvelli um starfsskilyrði greinarinnar (Forseti hringir.) þar sem þetta væri tekið með í reikninginn. Ég hvet atvinnuveganefnd Alþingis til þess að (Forseti hringir.) setja sig inn í þetta mál. Mig grunar að það megi lítinn tíma missa, annars gæti þetta haft verulega neikvæðar afleiðingar á ákvarðanir bænda (Forseti hringir.) um að bregða jafnvel búskap á næstu vikum og mánuðum.


Efnisorð er vísa í ræðuna