145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að svokallaður SALEK-hópur hafi tekið til starfa. SALEK stendur fyrir Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga, og eiga helstu aðilar vinnumarkaðarins aðild að hópnum. Markmið með fundunum er m.a. að koma í veg fyrir yfirvofandi verkföll og ná varanlegri sátt á vinnumarkaði.

Efnahagslegur stöðugleiki er grundvöllur bættra lífskjara á Íslandi. Frá því í maí hafa verðbólgueinkenni gert vart við sig. Nái verðbólgan flugi eins og nú lítur út fyrir þá vitum við um áhrifin til hækkunar á verðlagi, vöru og þjónustu, svo og vaxta, þar á meðal á húsnæðislánum og öðrum lánum sem almenningur hefur tekið. Við hljótum að spyrja: Hvað verður um þær launahækkanir sem samið var um í maí? Brenna þær upp eða skila þær varanlegum kaupmætti, eins og öll efni ættu að standa til? Fyrir launþegann hlýtur kaupmátturinn að vera aðalatriðið. Þá vil ég að höfða ég til þeirra sem nú tala saman um samninga og reyna að draga lærdóm af reynslunni.

Annars staðar á Norðurlöndum hefur skapast löng hefð fyrir verklagi við gerð kjarasamninga og samskiptum milli launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda sem læra má af. Þar hafa menn tamið sér mjög öguð vinnubrögð og er litið á það sem grundvallaratriði að gera kjarasamninga sem styðja í senn við efnahagslegan stöðugleika og félagsleg markmið.

Það kann að vera að einstakir hópar hafi fengið meira en lagt var upp með í vor, en það getur þó ekki orðið réttlæting fyrir því að henda skynseminni fyrir borð. Það sem skiptir okkur mestu máli er hærri kaupmáttur og lægra verðlag.


Efnisorð er vísa í ræðuna