145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að gera að umtalsefni þau tíðindi sem átt hafa sér stað í kringum viðskiptasamninga ýmiss konar. Mér finnst mjög mikilsvert að hafa í huga að Reykjavíkurborg hlýtur að vera sjálfráð um það hvernig hún hagar innkaupum sínum, það er bara þannig.

Við höfum sem betur fer hér á Alþingi borið gæfu til að samþykkja ályktun um Palestínu og Ísrael og það hlýtur því að vera svolítið skringilegt að allt fari hér á hvolf þó svo að sú tillaga sem samþykkt var í borgarstjórn hafi verið illa undirbúin að því leytinu til að hún var ekki nægilega skýr varðandi það hvaðan þau ætluðu sér að kaupa vörur. Það er bara þannig.

Segjum að þeir sem eru í sveitarstjórn fyrir Mosfellsbæ eða einhver önnur sveitarfélög ætli að hætta að kaupa vörur frá Rússlandi eða Kína, mundi allt fara á límingunni? Mundi öll ríkisstjórnin fara að skipta sér af því og segja að viðkomandi sveitarfélag hafi ekki rétt á að móta sína innkaupastefnu sjálft?

Því miður hefur þetta mál farið illa af stað en mér finnst mjög slæmt þegar við erum farin að líkja þessu við aðfarir nasista eða eitthvað í þá veru. Ég held að við séum komin langt út fyrir eðlilega umræðu um þessi mál. Svo á maður ekki að láta undan þrýstingi stórríkja eða smáríkja um það hvernig maður hagar sínum málum. (Forseti hringir.) Ég legg til að við skoðum innkaupastefnu Alþingis og skoðum hvort við eigum að kaupa vörur frá Kína.


Efnisorð er vísa í ræðuna