145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um nýgerðan samning við Evrópusambandið um tollalækkanir á landbúnaðarafurðum. Nokkur misskilningur virðist ríkja um það í hverju þessi samningur er fólginn. Í fyrsta lagi tekur hann ekki gildi á morgun eða hinn, fyrst tekur við aðlögun áður en samningurinn tekur gildi. Í öðru lagi eru þær greinar sem viðkvæmastar eru fyrir innflutningi, þ.e. svínarækt og alifuglarækt, í þeirri stöðu að magntölurnar í samningnum eru heldur lægri en innflutningur var á þessum sömu vörum í ár og í fyrra. Það sama á við um nautakjöt. Það er því ekki verið að leggja til atlögu við þessar greinar og reyna að rústa þeim.

Það er hins vegar annað mál og alveg laukrétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér áðan að hv. atvinnuveganefnd þarf að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og fara vel yfir það. Það gefst líka tími til kynningar á málinu sem ég held að sé mjög nauðsynleg. Í annan stað þurfum við að nota þann tímann þangað til samningurinn tekur gildi til að búa svo um hnútana að sá ábati sem verður af samningnum skili sér að fullu til neytenda. Samningurinn á að bæta kjör neytenda og bænda, ég trúi því að báðir aðilar geti hagnast á honum. Þess vegna þarf að nota þann tíma sem nú gefst þar til samningurinn tekur gildi. Það þarf að efla samkeppniseftirlit og þau tól sem menn hafa til þess að fylgjast með því að verð á þessum afurðum verði með þeim hætti sem ætlast er til eftir að tollum verður aflétt.


Efnisorð er vísa í ræðuna