145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það gladdi mig mjög eins og flesta aðra að frétta síðasta laugardag að ríkisstjórnin ætlaði að veita 2 milljarða kr. til flóttamannaaðstoðar á næstu tveimur árum. Sem Íslendingur var ég mjög stoltur yfir þessari ákvörðun sem er líka algjörlega í takti við það sem almenningur hefur kallað eftir síðustu vikurnar. Eitt af því sem ég tel bráðnauðsynlegt að huga að í þeim hraða en vandaða undirbúningi sem þarf að verða fyrir móttöku flóttafólks er að upplýsa börn og ungmenni um það sem fram undan er. Ég skora því á menntamálayfirvöld að hafa forgöngu um það í samstarfi við alla skóla landsins að fram fari kynning á því hvers vegna staða þessa fólks sé eins og raun ber vitni, börnum og ungmennum verði bent á hversu mikilvægt það sé að sýna flóttafólkinu sem hingað kemur skilning og umhyggju, alveg sérstaklega börnunum. Börnin eru framtíð okkar og ef þeim líður ekki vel líður okkur ekki vel. Það á við um alla og alveg sérstaklega fólk sem hefur þurft að þola miklar ógnir og hefur neyðst til að flýja heimili sín í leit að framtíð fyrir börnin sín.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er því fylgjandi að taka á móti flóttafólki. En það hefur ekki heldur farið fram hjá neinum að það eru líka til raddir sem ala á ótta og tortryggni og jafnvel hatri gagnvart þessu umkomulausa fólki. Það má alls ekki vanmeta þau áhrif sem þessar raddir geta haft, ekki síst á börn og ungmenni. Við því þarf að bregðast.

Þrátt fyrir þessi ánægjulegu tíðindi síðasta laugardag megum við að sjálfsögðu ekki gleyma því að hér á landi er líka fólk sem býr við þröngan kost. Fátæk börn eru allt of mörg. Fatlaðir og öryrkjar njóta ekki fullra mannréttinda og eldri borgurum finnst að sér vegið. Það eru til nægir peningar í þessu góða landi okkar en þeim er misskipt og þannig hefur það alltaf verið. Á Íslandi á enginn að þurfa að líða skort, hvorki innfæddir né aðfluttir.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna