145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er hér kominn til að hrósa Framsóknarflokknum fyrir að ljúka þeim tollaviðræðum sem hafnar voru í tíð Össurar Skarphéðinssonar og ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG við Evrópusambandið. Hér er auðvitað um að ræða gríðarleg framfaramál fyrir neytendur en líka fyrir landbúnaðinn. Það er fagnaðarefni að Framsóknarflokkurinn skuli hafa færst svo nálægt okkur í Samfylkingunni í sjónarmiðum í þessum mikilvæga málaflokki.

Hvað er það sem við höfum verið að reyna að segja í þessum efnum? Við höfum talað fyrir auknu frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur og sagt að það komi neytendum til góða í lægra verði en líka að það komi landbúnaðinum til góða í þeim miklu sóknarfærum sem hann á inn á evrópska markaði og það hafi verið til trafala fyrir landbúnaðinn og sóknarfæri til að mynda með skyrið að hafa ekki þann aðgang. Það er ánægjulegt að heyra núna ráðherra Framsóknarflokksins tala fyrir þessum sjónarmiðum, þeim sóknarfærum sem landbúnaðurinn á inn á Evrópumarkað og mikilvægi þess að við fáum greiðan aðgang þangað inn með skyr og með lambakjöt.

Einnig höfum við sagt að önnur sjónarmið eigi við þegar kemur að hvíta kjötinu, þar sé ekki hið hefðbundna íslenska fjölskyldubú sem þurfi að verja, þar sé meira um iðnframleiðslu að ræða og þar eigi menn að hleypa inn meiri samkeppni. Það er fagnaðarefni að Framsóknarflokkurinn skuli líka í þessu taka skref til að auka samkeppni í hvíta kjötinu. Ég held að hið hefðbundna íslenska fjölskyldubú þurfi ekki að kvíða þeim skrefum. En ég kalla eftir því að þegar verði tekið næsta skref, að ráðherrar Framsóknarflokksins fylgi þessu eftir með því að óska á ný eftir viðræðum um frekari gagnkvæmar tollalækkanir á landbúnaðarvörum við Evrópusambandið. Meðan við erum ekki orðnir aðilar að (Forseti hringir.) Evrópusambandinu sem væri auðvitað einfaldasta leiðin til að auka sóknarfæri landbúnaðarins inn á þá markaði er mikilvægt að við látum ekki hér staðar numið heldur sækjum fleiri sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað á Evrópumarkað.


Efnisorð er vísa í ræðuna