145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna umræðunni, ég held að hún sé mjög mikilvæg. Ég held að einhver stærsta spurningin sem blasir við í íslensku heilbrigðiskerfi og í heilbrigðiskerfum víðar sé einfaldlega sú hvar eigi að staðsetja sig þegar kemur að því að taka upp ný lyf. Það er hægt að setja markið mjög hátt og þá verður það mjög dýrt eða hægt er að vera mjög afturhaldssamur og taka mjög þétt í taumana þegar kemur að því að viðurkenna notkun á nýjum lyfjum.

Mér skilst, ég er nú ekki sérfræðingur á þessu sviði, að hér áður fyrr hafi stefnan yfirleitt verið sú að miða við Norðurlöndin í upptöku á nýjum lyfjum í íslenska heilbrigðiskerfinu en í eftirleik hrunsins hafi verið nauðsynlegt að draga saman seglin, kippa í taumana, því miður, og íslenska heilbrigðiskerfið hafi farið að miða sig við breska staðalinn sem er afturhaldssamari, varfærnari, en Bretar njóta þess að hafa mjög líflegan lyfjaiðnað. Þeir geta því fyllt upp í bilið, bætt upp fyrir afturhaldssemina með innlendum lyfjaiðnaði sem við höfum ekki.

Við höfum því miður — og erum kannski að ranka við okkur núna — staðsett okkur mjög aftarlega á merinni þegar kemur að því að viðurkenna notkun á nýjum lyfjum. Nýlegt dæmi sem fór fyrir rétt um nýtt lyf við lifrarbólgu C er mjög átakanlegt dæmi um þetta. Þar höfum við lyf sem er viðurkennt af öllum nágrannaþjóðum okkar, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sagt að þetta sé nauðsynlegt lyf, en við tökum það ekki upp út af mjög þröngum fjárhagsramma.

Þá vil ég segja eitt: Þetta er vissulega dýrt lyf en mörg lyf eru dýr, mjög mörg lyf eru dýr, en eins og hæstv. ráðherra kom inn á eru alltaf gerðar áætlanir um það hvernig svona dýr lyf eru notuð og það er útúrsnúningur (Forseti hringir.) að segja að einhver sé að halda því fram að það eigi að lækna alla þúsund í einu með þessu lyfi, heldur eru gerðar áætlanir til langs tíma.