145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það kemur skýrt fram, hvenær sem spurt er, að skattgreiðendur telja að heilbrigðiskerfið eigi að njóta fyrsta forgangs við nýtingu skattfjár. Þetta kemur fram hjá hverjum sem maður spyr, óháð aldri, flokki, stétt og hvaðeina. Þetta er mjög skýrt.

Forgangsröðun fjármagns í heilbrigðiskerfinu er þó sennilega eitt erfiðasta viðfangsefnið í pólitíkinni því að þótt að auðvelt sé að líta á peninga sem eintóman munað sem auðveldlega megi fórna fyrir mannslíf þá stendur sú staðreynd eftir að peninganna er þörf til að bjarga mannslífum.

Það gleður mig mikið að heyra að samstarf á Norðurlöndum gæti aukið aðgengi að dýrum lyfjum, það er mjög gott að heyra og gleður mig að heyra að vel sé hugsað um þessi mál, a.m.k. til lengri tíma. En eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi er mikilvægt að hafa áætlun um það hvernig nýta eigi skattfé, sérstaklega þegar kemur að mjög dýrum lyfjum.

Lyf geta verið ofboðslega dýr. Þau geta verið það dýr að maður verður að spyrja sig hvort maður sé að bjarga fleiri mannslífum með því að nýta féð öðruvísi. Það er að miklu leyti, að ég tel, fagleg spurning sem ég tel ekki verða útkljáða hér, ef ég á að segja alveg eins og er. Þess vegna fagna ég því að samstarf á Norðurlöndum eigi að geta aukið aðgengi að þessum dýru lyfjum.

Ég verð þó að minnast á að þegar einstaklingur smitast af sjúkdómi á borð við lifrarbólgu C þá þykir mér það heldur sérstakt tilfelli og algjörlega við hæfi og í raun nauðsynlegt að litið sé sérstaklega á það mál og það tekið út fyrir sviga. Ef ríkið ber ábyrgð á því að einhver fái svo alvarlegan sjúkdóm þá tel ég alveg eðlilegt að ríkið bæti þann skaða og bregðist við með því að sýna sérstaka skilning í þeim tilteknu tilfellum.

Að öðru leyti vona ég bara og treysti því að hæstv. ráðherra muni standa vel að þessum málum.