145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hef þá trú að sá vandi sem við erum að tala um núna eigi ekki eftir að fara frá okkur á næstunni vegna þess að þróunin er sú að fram koma ný lyf, ótrúleg lyf, t.d. eins og lyfið við lifrarbólgu C, sem ég held að sé mjög einstakt að því leytinu til að það getur læknað sjúklinginn. Yfirleitt er það ekki svo að lyf lækni sjúkling. Yfirleitt þarf fólk að taka lyf alla sína tíð.

Það eru miklar framfarir í framleiðslu lyfja og því fylgir að sú tækni sem notuð er í þessum efnum er mjög dýr þannig að við eigum eftir að standa frammi fyrir þessu.

Þess vegna þurfum við að hugsa kostnaðinn við heilbrigðiskerfið nokkuð öðruvísi en við höfum hingað til gert. Það þarf að taka inn í dæmið hvað það kostar að sjúklingurinn veikist eða fái lyfið. Við getum bæði reiknað það út frá því hvað það kostar okkur, samfélagið, og hvað það kostar einstaklinginn. Við höfum um árabil notað lyf sem voru mjög dýr fyrir 10–15 árum eða meira sem eru orðin ódýrari núna. Þau hafa til dæmis gert gigtarsjúklingum það kleift, sem voru meira og minna frá vinnu vegna veikinda sinna, að snúa aftur til vinnu. Það var dýrt en það breytti lífi þessa fólks. Það breytti því líka að í stað þess að fólkið væri baggi, ef ég má orða svo, af því að það gat ekki unnið þá getur þetta fólk nú starfað úti í samfélaginu vegna lyfjanna. Því ber að fagna (Forseti hringir.) og auðvitað fagnar maður öllu samstarfi með Norðurlöndum, (Forseti hringir.) en við þurfum samt að staðsetja (Forseti hringir.) okkur mjög ákveðið í því samstarfi.