145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[16:00]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar erum oftast mjög fljótir til samúðar þegar á reynir, það sýna fjölmörg tilfelli frá fyrri árum og nú síðast viðhorf okkar til vanda flóttamanna. Fjölmargir hafa lýst yfir vilja til að taka þátt í að aðstoða það fólk til betra lífs.

Hið sama gildir um samlanda okkar sem eiga við vanda að stríða af hvaða toga sem hann er. Við horfum á einstaklinginn og viljum gjarnan rétta hjálparhönd. Okkur svíður óréttlæti og ósanngirni og við missum okkur stundum í tilfinningahita í umræðunni. Þess vegna er svo mikilvægt að það gildi reglur eða ákveðið vinnulag þar sem það á við.

Einstaklingar sem glíma við mjög erfiða og alvarlega sjúkdóma þurfa oft að fá lyf sem eru afar dýr, svonefnd S-merkt lyf. Fagfólk sjúkrahúsa er best fallið til að ákveða á hvaða stigi sjúkdómurinn er og hvaða meðferð og lyf hæfa. Einstaklingar fá lyf og þjónustu eftir þeirri greiningu en aldrei eftir því hvernig sjúkdómurinn er til kominn.

Það er ekki utanaðkomandi að segja til um eða dæma um það þó að í einhverjum tilfellum geti sú niðurstaða verið sársaukafull og að mati aðstandenda ósanngjörn eins og nýleg dæmi eru um.

Við stöndum frammi fyrir því, eins og fjölmargar aðrar þjóðir, að kostnaður vegna lyfja er mun meiri en við höfum fjármagn til. Þess vegna þarf að forgangsraða og meta hvar þörfin er mest. Þess vegna vakna spurningar hjá hinum almenna borgara um það hvert hlutfallið í fjárlögum hvers árs eigi að vera til heilbrigðismála og hvað eigi að víkja fyrir því. Það er sannarlega sársaukafull umræða því að í hjarta okkar viljum við að allir fái viðeigandi lækningu og lyf við sínu meini.