145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[16:07]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þau svör sem hann hefur gefið okkur í umræðunni. Ég vil byrja á að segja að ég harma þá stöðu sem komin er upp í þessum málum. Í okkar velferðarþjóðfélagi er erfitt að horfa upp á stöðu sem þessa. Ég fagna samt þeim orðum ráðherra að unnið sé að því að bæta úr málum er varða innkaup, m.a. á S-merktum lyfjum, og að unnið sé að samstarfi við Norðurlöndin um innkaup þannig að við getum sýnt ákveðna hagkvæmni í innkaupum og náð þar með að lækka lyfjakostnaðinn og jafnvel að fá meira af lífsnauðsynlegum lyfjum og koma til móts við fleiri beiðnir, ég veit ekki. Einnig er mikilvægt að breyta lögum um opinber innkaup. Ég fagnaði því verulega þegar hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um það í ræðu sinni hér þegar við ræddum fjárlagafrumvarpið fyrir nokkrum dögum.

Ég get tekið undir það sem fram hefur komið í umræðunni, ég tel mjög mikilvægt að það sé mörkuð stefna í þessum málum, að við skoðum hvaða leið við viljum fara. Ég tel einnig mjög mikilvægt að við horfum til þess hvað lyf geta gert fyrir einstaklinga, hvort þeir geti haldið jafnvel vinnugetu og orðið fullgildir á vinnumarkaði og fleira. Það eru mjög margir þættir sem við þurfum að horfa til en ég fagna því verulega að verið er að stíga virkilega góð og stór skref í heilbrigðisráðuneytinu til umbóta í þessum málum. Það er vel gert.