145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:16]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, voru samþykkt á Alþingi í mars 2013 með gildistöku 1. apríl 2014. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram á Alþingi haustið 2013 frumvarp til laga um brottfall laganna og var jafnframt lagt til að lögin yrðu endurskoðuð frá grunni. Umhverfis- og samgöngunefnd skilaði nefndaráliti sínu í febrúar 2014 þar sem lagt var til, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra, að í stað þess að fella lögin úr gildi yrði gildistöku þeirra frestað til 1. júlí 2015. Í nefndarálitinu kemur meðal annars fram, með leyfi forseta, að „þótt einstakir þættir laga nr. 60/2013 séu umdeildir telja allmargir að ávinningur felist í þeirri vinnu sem lögð hefur verið í heildarendurskoðun laganna“. Í niðurstöðukafla álitsins kemur jafnframt fram:

„Nefndin hefur komist að samkomulagi um að leggja áherslu á endurskoðun tiltekinna ákvæða laganna og tryggja um leið innbyrðis samræmi milli ákvæða. Í þeim efnum skal byggt á fyrirliggjandi vinnu, þeirri heildarhugmyndafræði sem liggur lögunum til grundvallar og á þeim sjónarmiðum að reynt sé að ná aukinni sátt um lokaniðurstöðu.“

Í fyrrnefndu nefndaráliti kemur fram að þeir kaflar laganna sem þóttu sérstaklega umdeildir vörðuðu ákvæði um varúðarregluna, kaflann um almannarétt, kaflann um utanvegaakstur og kortagrunn, ákvæði um sérstaka vernd og kaflann um framandi lífverur. Við endurskoðun laganna lagði ég því áherslu á að þau atriði yrðu tekin til skoðunar, auk þess sem önnur atriði voru skoðuð, til að mynda verkaskipting stofnana, skilgreiningar hugtaka og ferli friðlýsinga.

Ég ætla nú að gera grein fyrir hvernig staðið var að vinnu við samningu frumvarpsins með því markmiði að skapa sem víðtækasta sátt um efni þess.

Haustið 2014 var kallaður saman samráðsvettvangur hagsmunaaðila til að starfa með ráðuneytinu og vera því til ráðgjafar við samningu frumvarpsins. Aðilar að þeim vettvangi voru Bændasamtök Íslands, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök atvinnulífsins, Landvernd, Skógræktarfélag Íslands, samtök útivistarfélaga, Ferðafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Fuglaverndarfélag Íslands, Landssamtök landeigenda á Íslandi, landssamtök hjólreiðamanna, Náttúruverndarsamtök Íslands og Landssamband veiðifélaga. Fyrsti formlegi fundur ráðuneytisins með samstarfshópnum var 21. október 2014. Í kjölfarið var aðilum boðið að senda inn athugasemdir við málið ef þeir óskuðu eftir því en jafnframt var tekið fram að litið yrði til þeirra athugasemda og umsagna sem þegar lægju fyrir í málinu en fyrir liggi í þessu máli umfangsmiklar ábendingar og athugasemdir sem komu fram í meðförum ráðuneytisins og Alþingis.

Í upphafi þessa árs áttu fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þar var farið yfir þau atriði sem ráðuneytið taldi að þyrfti að taka til sérstakrar skoðunar og þau kynnt nefndinni.

Var þar haft til hliðsjónar álit nefndarinnar frá febrúar 2014 og þau atriði sem þar voru tiltekin. Þá átti ráðuneytið fundi með fjölmörgum hagsmunaaðilum þar sem þeim var boðið að koma með breytingartillögur við frumvarpið. Að auki vil ég nefna að ráðuneytið hefur notið aðstoðar dr. Aðalheiðar Jóhannsdóttur, prófessors í umhverfisrétti, við endurskoðun ákveðinna kafla laganna.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd voru birt til almennrar kynningar og auglýst til umsagnar á vef ráðuneytisins 10. mars 2015. Að auki voru haldnir fundir með áðurnefndum samráðsvettvangi þar sem farið var yfir drögin og þau kynnt hópnum. Ráðuneytinu bárust yfir 20 umsagnir, m.a. frá stofnunum, sveitarfélögum, félagasamtökum og einstaklingum. Eftir yfirferð yfir þær athugasemdir voru gerðar ákveðnar breytingar á frumvarpinu sem varða einkum skilgreiningu hugtaka, ákvæði um umferð gangandi manna og takmörkun umferðar, um akstur utan vega og skrá yfir vegi í náttúru Íslands og um rétt til bóta.

Eins og ég hef rakið var frumvarpið unnið í mjög víðtæku samráði við hagsmunaaðila auk náins samráðs við umhverfis- og samgöngunefnd. Vil ég hér fá að þakka þá góðu samvinnu.

Gert var ráð fyrir að leggja frumvarpið fram á Alþingi síðastliðið vor en sökum tímaskorts var það ekki unnt. Í stað þess var lagt fram frumvarp um að fresta gildistöku nýrra náttúruverndarlaga til 1. janúar 2016 en samkomulag varð um að gildistakan yrði færð til 15. nóvember 2015.

Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi miðast að því að skýra betur framkvæmd ákveðinna greina náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, ná betri samstöðu um málefni nýrra náttúruverndarlaga og styrkja þannig náttúruvernd í landinu frá því sem nú er. Ljóst er að réttarreglur náttúruverndar þurfa að líta til margra og ólíkra hagsmuna og sjónarmiða og það er afar mikilvægt að sátt ríki um slíka grundvallarreglur sem yrði almennri náttúruvernd í landinu til heilla.

Fer ég yfir helstu breytingar í frumvarpinu.

Framsetningu varúðarreglunnar er breytt, en gildissvið reglunnar er gert skýrara og jafnframt gert ráð fyrir að útfært verði nánar í reglugerð hvernig henni verði beitt. Lagðar eru til breytingar á almannaréttarkafla laganna þar sem leitast er við að tryggja almannarétt til frjálsrar farar á sama tíma og rétti til að takmarka umferð um landsvæði er breytt. Það er á þann hátt að ítarlegri ákvæði eru um heimildir til að takmarka umferð, bæði á grundvelli nýtingar landeigenda og lokunar í verndarskyni þegar veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar.

Ný nálgun er í V. kafla laganna um akstur utan vega á þann hátt að gert er ráð fyrir að birting kortagrunns verði í höndum Vegagerðarinnar þannig að samræmi verði tryggt milli vegaskrár, stofnunarinnar og þeirrar skrár sem unnin er samkvæmt nýrri 32. gr. frumvarpsins. Dregið er úr réttaráhrifum skráningar minja á náttúruminjaskrá en á sama tíma er leitast við að styrkja réttaráhrifin frá því sem er í gildandi náttúruverndarlögum.

Ákvæði laganna um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja er styrkt frá því sem er í gildandi náttúruverndarlögum og með því komið til móts við þær athugasemdir og ábendingar um að réttaráhrif þessa ákvæðis megi ekki ganga eins langt og boðað var í lögum nr. 60/2013.

Hvað varðar kafla laganna um framandi tegundir og innflutning og dreifingu þeirra er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hann verði endurskoðaður með það að markmiði að sameina stjórnsýslu Umhverfisstofnunar við verkefni Matvælastofnunar á sviði eftirlits með innflutningi dýra og ýmiss konar meindýrum.

Ég mun nú gera nánari grein fyrir þessum helstu breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á framsetningu varúðarreglunnar eins og áður var sagt. Bent hefur verið á að taki hún gildi óbreytt muni það valda réttaróvissu um hvenær þessi mikilvæga regla eigi við, sem verður að ráða bót á.

Breytingin miðar að því að þrengja gildissvið greinarinnar á þann veg að hún gildi um stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði í reglugerð nánari ákvæði um beitingu reglunnar henni til framdráttar. Óvissa, yfirleitt vísindaleg óvissa, og skortur á upplýsingum um hvort ákveðnar athafnir eða athafnaleysi muni hafa óæskileg áhrif á náttúrunnar eru rökin að baki reglunni.

Í 6.–12. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er tengjast almannarétti. Helstu breytingar í þeim greinum snúa að samspili frjálsrar farar um land annars vegar og nýtingu landeigenda eða rétthafa hins vegar. Með breytingunum er lagt til að skýra nánar að þegar landeigandi eða rétthafi er sannarlega að nýta óræktað land í byggð sé honum heimilt að takmarka för um það land.

Því samhliða er lögð til breyting á 25. gr. er snýr að heimildum til að takmarka umferð um land. Þær breytingar miða að því að stýra betur umferð um viðkvæm svæði þar sem mikill ágangur hefur í för með sér verulega hættu á tjóni.

Í 13. og 14. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á þeim kafla laganna sem fjallar um akstur utan vega og skrá yfir vegi í náttúru Íslands.

Ef við skoðum fyrst breytingartillögur við 13. gr. þá miða þær að því að skýra það sem talið hefur verið óskýrt auk þess að einfalda undanþáguákvæði sem heimilar akstur utan vega við ákveðin störf. Að auki er lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að veita undanþágu við banni um akstur utan vega vegna kvikmyndagerðar. Frá því að lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, voru samþykkt hafa ítrekað komið upp tilvik þar sem kvikmyndatökufólk hefur óskað eftir því að fá að keyra utan vega vegna kvikmyndagerðar. Ekki er hins vegar talið forsvaranlegt að veita almenna undanþágu heldur verði slíkur akstur ávallt bundinn við leyfi Umhverfisstofnunar.

Í 14. gr. frumvarpsins er lögð til grundvallarbreyting á 32. gr. laganna er fjallar um kortagrunn og vegslóða en í frumvarpinu er lagt til að vinnan verði samræmd til framtíðar öðrum samgöngumálum í landinu. Í stað þess að gefinn verði út kortagrunnur sem Landmælingar Íslands hafa umsjón með er lagt til að Vegagerðin skuli halda skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands sem heimilaðir eru vélknúnum ökutækjum til umferðar. Vegagerðinni er heimilt að halda slíka skrá og lagt er til að sveitarfélög geri tillögu að skránni innan sinna marka við gerð aðalskipulags og hún hljóti samþykkt samhliða afgreiðslu þess.

Með þessu móti er ekki gert ráð fyrir að kortagrunnur verði gefinn út einu sinni heldur sé um lifandi skrá að ræða sem Vegagerðin hefur umsjón með. Innan skrárinnar er svo möguleiki að flokka vegi eftir mismunandi notkun, hvort um opna vegi eða lokaða sé að ræða og því um líkt.

Í 17. gr. frumvarpsins er lögð til breyting er snýr að réttaráhrifum skráningar minja á náttúruminjaskrá. Þegar frumvarp það er varð að lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, var til umfjöllunar beindist mikil gagnrýni að því að réttaráhrifin væru of víðtæk, þ.e. að ekki mætti raska þeim svæðum sem væru á náttúruminjaskrá nema brýna nauðsyn bæri til og engir aðrir kostir væru í stöðunni. Breytingin miðar að því að milda þetta orðalag en ég vil jafnframt benda á að telji menn þörf á frekari verndun ákveðinna svæða á náttúruminjaskrá gefa lögin tækifæri til þess að friðlýsa það svæði og þannig fær það frekari vernd.

Í 28. gr. frumvarpsins eru lögð til breyting á ákvæði laganna er snýr að sérstakri vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Lagt er til að orðalagi í 57. gr. verði breytt á þann veg að í stað þess að kveðið verði á um bann við röskun minjanna nema brýna nauðsyn beri til og aðrir kostir henta ekki verði kveðið á um að forðast beri að raska þessum minjum eins og kostur er.

Ég tel þessa breytingu eðlilega, enda er í ákvæðinu fjallað um sérstaka vernd náttúrufyrirbæra hvar sem þau er að finna á landinu en ekki skráningu minja á náttúruminjaskrá sem miðast við ákveðin svæði.

Í 29. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á þeim kafla laganna er fjallar um innflutning og dreifingu lifandi framandi lífvera. Í fyrsta lagi er lagt til að í umsókn um innflutning verði sameiginlega gerð grein fyrir ástæðu innflutnings og áformum um dreifingu. Í öðru lagi er ákvæðinu breytt á þá vegu að leyfi Umhverfisstofnunar þarf til innflutnings og dreifingar á lifandi framandi lífverum nema lífveran sé nú þegar komin til landsins eða innflutningur hennar bannaður samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

Ég vil taka fram að þeim aðila, sem ber ábyrgð á innflutningi framandi lífvera sem ekki er ætlað að dreifa, ber skylda til að sýna sérstaka varúð og grípa til allra þeirra ráðstafana sem sanngjarnt verður talið svo og koma í veg fyrir að lífverurnar sleppi og dreifist.

Í frumvarpinu er jafnframt að finna fleiri breytingar sem varða meðal annars verkaskiptingu stofnana, skilgreiningu hugtaka og vegna friðlýsingar svæða. Breytingarnar er snúa að friðlýstum svæðum varða einkum flokka friðlýstra svæða og að kveðið verði á með skýrum hætti um að ávallt skuli fá leyfi Umhverfisstofnunar til framkvæmda og vegna starfsemi þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.