145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð orð í garð frumvarpsins.

Varúðarreglan er vissulega einn af þeim meginköflum sem legið var yfir og reynt að skýra betur. Breytingin er ekki hvað síst sú að reynt er að skýra betur gildissvið hennar. Það er rétt að hún nær eingöngu yfir stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um náttúruvernd.

Varúðarregla getur vissulega haft áhrif á önnur lög, en vegna fyrirspurnar hér um stjórnarskrárnefndina þá hef ég fregnir af því að verið sé að skoða það að setja varúðarregluna í ákveðinni mynd í stjórnarskrána. Það komu náttúrlega fjölmargar athugasemdir sem ég veit að hv. þingmaður veit líka um varðandi varúðarregluna. Við teljum að við höfum reynt að skýra hana betur með þessum hætti, hún er ekki fléttuð inn í önnur lög, það er rétt, heldur er hún sett núna í fyrsta sinn inn í náttúruverndarlög. Svo er verið að velta þessu fyrir sér varðandi stjórnarskrárnefndina, síðan kemur reglugerð og hún verður náttúrlega ákveðin forskrift um það hvernig eigi að haga sér.