145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er nú kannski ekki ástæða til þess að fara í mikinn þyrrking við hæstv. ráðherra á þessu stigi umræðunnar. Ég vil þó leyfa mér að segja að þetta er ekki að skýra regluna, þetta er að þrengja hana, það er það sem það heitir. Við skulum bara segja að það er verið að þrengja gildissvið reglunnar, það er verið að veikja varúðarregluna frá því sem er í lögum nr. 60/2013.

Mér fannst svar hæstv. ráðherra nokkuð óljóst að því er varðar samstarf eða samkeyrslu þessara tveggja verkefna, annars vegar stjórnarskrárvinnunnar og hins vegar þessa frumvarps og vil því spyrja hana: Hefur umhverfisráðuneytið haft samráð við forsætisráðuneytið um orðalag og skilning á varúðarreglunni eins og verið er að vinna með hana í stjórnarskrárvinnunni? Þetta skiptir máli fyrir okkur að vera upplýst um. Í öðru lagi segir hæstv. ráðherra að hún sé að bregðast við ýmsum athugasemdum og ég vil spyrja hvort það sé ekki rétt hjá mér að þær athugasemdir hafi fyrst og fremst komið að því er varðar gildissvið varúðarreglunnar og þrengingu hennar, sú krafa hafi fyrst og fremst komið frá Landsvirkjun, Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins og öðrum þeim sem hafa hagsmuni af því að veikja stöðu náttúrunnar í íslenskri löggjöf og styrkja á móti stöðu framkvæmdaraðila. Hvernig sér hæstv. ráðherra það sem sitt hlutverk að gæta sérstaklega þeirra hagsmuna í þeirri tillögu sem hér er lögð fram?