145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við hefjum enn einn veturinn að ræða þetta mikilvæga mál og er það vel, enda mikilvægt að hér sé vandað til verka. Ekki þarf svo sem að fara yfir það í löngu máli hvernig það er til komið að við erum komin með það hingað í þá stöðu sem það er í núna. Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt mjög umfangsmikil náttúruverndarlög og síðan kemur forveri hæstv. ráðherra í starfi, hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, með frávísunarfrumvarp á þá löggjöf sem samþykkt hafði verið á vordögum 2013 eftir gríðarlega umfangsmikið samráð og mikla vinnu. Þegar við í umhverfis- og samgöngunefnd fórum síðan að skoða málið betur áttuðu menn sig á því, þvert á alla flokka, að það væri nú kannski full drastískt að ætla að henda allri þeirri góðu vinnu vegna þess að grunnurinn í nýjum lögum væri töluvert sterkari en í gildandi löggjöf. Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar á sínum tíma að gildandi löggjöf fæli í sér oft og tíðum gríðarlega mikla réttaróvissu og sem væri skýrð með nýja lagabálknum sem ekki hefði tekið gildi.

Í vinnu nefndarinnar kom líka í ljós að óráð væri að kasta öllum þeim stóra lagabálki eins og hann legði sig, það væri betra að reyna að afmarka þau atriði sem deilt væri á. Þegar sú vinna hófst kom í ljós að þau atriði voru ekki ýkja mörg heldur voru þetta atriði eins og umfjöllun um almannaréttinn, varúðarreglan sem nefnd hefur verið, ákvæði um sérstaka vernd, utanvegaakstur og síðan ákvæði um framandi lífverur. Þetta voru atriðin sem við gátum einangrað málið við. Það var gott að við skyldum á sínum tíma ná saman um það að henda ekki þeirri mikilvægu og góðu vinnu heldur halda henni í grunninn en fara þá í að skoða þau atriði sem ég nefndi.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það en ég hefði auðvitað viljað að nefndin hefði komið í fyrsta lagi fyrr að málinu. Í öðru lagi að við hefðum haft meira að segja um það frumvarp sem liggur hér fyrir. Það er rétt, við áttum góða fundi með fulltrúum ráðuneytisins, en svo var svo sem ekkert samráð haft við okkur um það hvernig málin yrðu útfærð áður en þau yrðu síðan lögð fram. Ég hefði alveg eins séð fyrir mér að nefndin hefði getað lokið þeirri vinnu og flutt málið. Það hefði að minnsta kosti verið áhugavert að gera atlögu að því. Það hefði þá kannski getað tryggt það að menn reyndu að ná góðri sátt í málinu.

Fyrir okkar leyti í Samfylkingunni er þetta breytingafrumvarp að ýmsu leyti ágætt, og við þökkum fyrir vilja ráðherrans til að reyna að ná einhverri samstöðu um málið á þeim skamma tíma sem er þar til lögin taka gildi, en ég verð samt að setja nokkra fyrirvara. Við höfum fyrirvara við nokkur atriði í frumvarpinu og þeir eru býsna stórir. Þegar fjallað er um varúðarregluna svokölluðu þar sem inntakið er að það skorti á vísindalega fullvissu þar sem hætta er á einhverju óbætanlegu tjóni á náttúrunni, að því skuli ekki beitt til að fresta einhverjum aðgerðum til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Þetta er regla sem við teljum mikilvægt að verði innleidd í lög. Lögð hafa verið fram nokkur lagafrumvörp yfir langan tíma sem hafa reynt að innleiða þessa varúðarreglu. Það er eiginlega alveg stórfurðulegt að við höfum ekki náð saman um almennilega varúðarreglu í íslenskri löggjöf verandi með þá gríðarlega mikilvægu og viðkvæmu náttúru sem við höfum. Vonandi tekst okkur að ná einhverri lendingu í því núna. En eins og reglan er orðuð í frumvarpinu viljum við sjá á henni breytingar, við munum fara vandlega yfir það í nefndinni með hvaða hætti það getur orðið.

Ég tek undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem talar um að í raun og veru sé hér um þrengingu að ræða. Það sem við sögðum í nefndaráliti okkar um varúðarregluna var að við töldum alveg skýrt að hana þyrfti að lögfesta en að útfæra þyrfti regluna í viðeigandi greinum náttúruverndarlaganna og eftir öðrum lögum eftir atvikum og gæta samræmis við önnur lög þar sem reglan kemur fyrir, þ.e. gagnrýni kom fram um að ákveðið ósamræmi væri við aðra löggjöf og innan löggjafarinnar. Okkur þótti rétt að skoða það. Við töluðum ekki um að það ætti að leiða til þess að einhver þrenging yrði. Við þurfum því að skoða þetta, við setjum fyrirvara við þetta.

Þá setjum við líka fyrirvara við það sem var og er helsta nýmælið í löggjöfinni frá 2013, sem eru ákvæði um sérstaka vernd. Það felst í nýju skipulagi á friðlýsingum, friðun og vernd þar sem gert er ráð fyrir heildstæðri náttúruminjaskrá í þremur hlutum auk sérstakrar verndar „tiltekinna vistkerfa, jarðminja o.fl.“ svo maður útskýri örlítið fyrir þeim sem á hlýða hvað þetta er allt saman. Þetta eru mikilvæg ákvæði. Við teljum að þetta þurfi sömuleiðis að skoða betur í frumvarpinu. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta.

Virðulegi forseti. Ég vænti mikils af störfum nefndarinnar og vona að okkur lánist að fara í gegnum þau atriði sem ég hef nefnt, auk annarra sem ég tel örlítið veigaminni, þetta eru svona stóru atriðin í málinu. Við þurfum líka að fara mjög vandlega í gegnum það hvaða áhrif það sem er í frumvarpinu hefur á ákvæði og á almannaréttinn almennt, það er stórt atriði í þessu. Í ljósi þess að tíminn er naumur í málinu viljum við gjarnan að það fari sem fyrst til umsagnar og við getum byrjað að vinna í málinu í nefndinni og vonandi lánast okkur að senda málið frá okkur á morgun.

Virðulegi forseti. Fyrst ég er núna með orðið um náttúruvernd þá verð ég að lýsa yfir alveg gríðarlegum vonbrigðum með það hvaða sess náttúruverndin hefur hjá ríkisstjórninni. Menn eru jú tilbúnir að gera alls konar hluti hvað löggjöf varðar og segja ýmislegt, en svo þegar kemur að því að fylgja löggjöf eftir þá vantar mikið upp á. Við sjáum það til dæmis í fjárlagafrumvarpinu. Þar er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu í friðlýsingar eða fjármunir lagðir til til að fylgja til dæmis verndarflokki rammaáætlunar eftir. Það er ekki hægt að vera alltaf með skoðun og vinna með nýtingarflokkinn eða biðflokkinn, það þarf líka að vinna með verndarflokkinn. Ef það er ekki gert verður aldrei nein sátt í málaflokknum. Það er að mínu mati ekki hægt að segja að ástæðan sé sú að afmarka þurfi svæðin betur, menn gætu þá sett sig niður, en meðan svo er ekki láta menn þetta algerlega afskiptalaust. Ráðherrann hefur ýmis tól og tæki til þess að fara í það. Það eru til dæmis einstaka kostir sem eru í verndarflokknum. Það er mjög skýrt kveðið á um hvaða svæði það eru. Ég nefni þar Norðlingaölduveitu. Það er mjög skýrt hvaða svæði er um að ræða. Því er lýst vel í þingsályktuninni sem samþykkt var héðan. Menn ættu því ekki að eiga í erfiðleikum með að friðlýsa það svæði.

Sömuleiðis gæti ráðherrann komið með tillögur byggðar á samþykkt um með hvaða hætti þetta yrði hnitsett og fengi Alþingi til þess að samþykkja það. Það er hægt vilji menn það. Ég verð að segja alveg eins og er að ég verð fyrir meiri og meiri vonbrigðum með hverju árinu sem líður því að menn hreyfa sig ekkert í þessu máli. Meini menn í alvörunni eitthvað með því að ná sátt í málaflokknum þá sinna þeir líka verndarflokknum, það er bara þannig, en eru ekki að krukka í honum eða taka upp kosti sem þar eru.

Ég kemst ekki hjá því að nefna þessi mál þegar við ræðum um náttúruvernd í hinu stóra samhengi og breytingu á þeim stóra og mikilvæga lagabálki sem ný náttúruverndarlög eru. Ég skora á hæstv. ráðherra að hefja núna þá vinnu að skilgreina þessi svæði þannig að við getum hafið og séð friðlýsingarferlið hefjast á verndarflokknum í rammaáætlun á þessu kjörtímabili annars verður þetta bara skilið eftir í ófriði. Það er bara þannig.

Ég vil líka nefna það að menn eiga ekkert í erfiðleikum með að vita nákvæmlega hvar megi virkja samkvæmt þingsályktuninni um rammaáætlun. Menn vita alveg upp á tíu fingur hvaða svæði má raska, en menn hafa ekki hugmynd um hvaða svæði á að vernda eða segjast ekki hafa hana. Það er ekki hægt að koma aftur og aftur og segja það við okkur hér vegna þess að við vitum alveg betur. Það er þá hægt, ef ráðherrann vill hafa einhverja meiri fullvissu eða stuðning á þinginu, að setja það niður hvaða svæði þetta eru og fara með okkur þingmönnum í gegnum það hér.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti, og hlakka til að takast á við þetta verkefni í nefndinni. En ég ítreka að við höfum ákveðna fyrirvara. Ég vona að okkur takist að nálgast þau mál með opnum huga og ná einhverri samstöðu um lendingu sem er okkur til sóma.