145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:20]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum og ráðherra fyrir góðar ræður. Mig langar að spyrja þann hv. þingmann sem síðast stóð hér í ræðustól, Svandísi Svavarsdóttur, um það hvort hún sé ósammála forstjóra Umhverfisstofnunar Evrópu sem átti fund með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í morgun. Þar tók hann fram að það væri í raun og veru mjög mikil gróska í hinu svokallaða græna hagkerfi og studdi það með rökum. Hv. þingmaður talar um að megintilgangurinn með náttúruvernd sé að hefta mannanna verk. Þar nefnir hún sérstaklega fyrirtæki sem vilji alltaf ganga lengra og lengra og þarna þurfum við í raun og veru að sporna við. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún sé ósammála orðum umhverfisstjórans sem hann lét falla um þessi atriði í morgun á nefndarfundinum þar sem hann sagði einmitt að mesta gróskan í atvinnu- og efnahagslífi væri nákvæmlega þar sem fyrirtæki störfuðu á grænan hátt og hefðu umhverfið í huga í öllum sínum störfum og verkum.