145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir mjög góða ræðu. Og ég vil jafnframt nota tækifærið og þakka fyrrverandi ráðherra fyrir að hafa verið besti umhverfisráðherra sem við höfum átt hérlendis. Það var unnið að mjög mörgum mjög þörfum málum í ráðherratíð hv. þingmanns og þar á meðal hvítbókinni sem er mjög merkilegt plagg. Ég vona að okkur takist að hífa okkur upp úr þessum hefðbundnu skotgröfum því þarna eru einmitt grunnreglurnar sem við getum fylgt til að láta náttúruna njóta vafans og til að aðstoða þá sem þurfa að framkvæma reglugerðir og lög til að gera það á sem bestan máta.

Nú er það svo að umhverfismál eru ekki eitthvað afmarkað og innilokað heldur snerta þau í raun líf okkar og framtíð. Mig langaði að spyrja hvort fyrrverandi ráðherra sjái einhverja meinbugi á því eða hvort það væri eitthvað sem betur mætti fara til að grípa þá stemningu sem nú er, sér í lagi kringum þessa miklu loftslagsráðstefnu sem verður í París í desember. Er eitthvað sem við getum gert til að sýna að við skiljum að náttúran er ekki aðskilin okkur?