145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi stöðuna og atlögurnar og að mörgu leyti umræðuna á síðasta kjörtímabili. Þá vil ég segja það að ég er sannarlega sammála því að umhverfismálin eiga erindi í öllu yfir allt hið pólitíska litróf, en ég er samt sem áður þeirrar skoðunar og er mjög hugsi yfir því að á síðasta kjörtímabili voru þeir aðilar sem hæst létu og voru með grimmustu atlögurnar gegn því að náttúran fengi að njóta vafans þeir sem standa fyrir því að verja hagsmuni peningaaflanna. Það er nefnilega þannig að það er kapítalisminn sem er stóra ógnin og að því leytinu til er mikilvægt að við áttum okkur á því að það þarf að reisa skorður við taumlausri græðgi og útþenslu kapítalismans ef það á að vera einhver framtíð fyrir mannkynið á jörðinni. Það snýst ekki bara um loftslag. Það snýst líka um líffræðilega fjölbreytni tegundanna, það snýst um vatn og loft og jarðveg. Þess vegna ætla ég að leyfa mér það, verandi bæði vinstri og græn, að halda því fram að þetta tvennt eigi töluvert mikla samleið.

Hins vegar vil ég segja það, af því að hv. þingmaður var að velta fyrir sér stöðu umhverfismálanna og ég veit að hv. þingmaður hefur nördalegan áhuga á Stjórnarráðinu og strúktúrnum í þessu öllu saman af því að það skiptir líka máli, að sums staðar er það þannig að umhverfismálin eru ofar í híerarkíinu. Þau eru nánast við hliðina á forsætisráðuneytinu. Í Frakklandi hefur umhverfisráðuneytið miklu sterkari stöðu en víðast hvar annars staðar og það finnst mér umhugsunarefni af því að málaflokkurinn varðar allt sviðið. Þá er ég að velta fyrir mér umhverfis- og auðlindaráðuneyti, ef það á að standa undir nafni á Hafrannsóknastofnun að vera þar.