145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum sem hafa ekki enn tekið gildi. Það eru lög um náttúruvernd nr. 60/2013. Það má segja að það hafi verið mikil læti út af þessum breytingum. Það urðu miklar deilur þegar þetta mál var til umræðu í þinginu á sínum tíma, undir lok síðasta kjörtímabils. Þá var mikill æsingur og úlfúð í ýmsum hópum. Eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór yfir þá var fáséður þvílíkur undirbúningur eins og fór fram fyrir setningu þessara laga. Síðan þegar málið var til umfjöllunar í þinginu leiddi þáverandi þingmaður, Mörður Árnason, þá vinnu með miklum sóma. Honum tókst af mikilli festu og hugsjón að ná saman ólíkum sjónarmiðum og sætta menn þannig að úr varð að hér var hægt að samþykkja þessi lög, en út af andstöðu í stjórnarandstöðunni var gildistökunni frestað.

Ég vil til gamans, út af þeim látum sem hér voru, rifja upp tortryggni bíla- og mótorhjólaferðamanna. Það voru mjög miklar deilur og vantrú á því að þetta mál væri gott og mikilvægt og því yrði að breyta. Um það náðum við niðurstöðu og það hefur sýnt sig að það er mikil sátt um hana því að hvergi er fjallað um það í þessu frumvarpi að breyta neinu í þá áttina.

Þau lög sem eiga að taka gildi 15. nóvember 2015 eru mikil framför frá núgildandi lögum. Þau taka bæði tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og horfa fram á við með hagsmuni náttúrunnar að leiðarljósi. Ég held að gildistökunni hafi síðan verið frestað fjórum sinnum.

Það sem vekur þó nokkra furðu en er þó gleðilegt þegar þetta mál er loks lagt hér fram er að það eru ekki ýkja miklar breytingar sem í raun er verið að boða þótt það séu ákveðin atriði sem ég ætla að fara yfir. Það er umhugsunarefni hvað olli svo miklum titringi að „afturkallið“ svokallaða kom sem varð eiginlega einkennismerki núverandi ríkisstjórnar sem vildi helst afturkalla fyrra kjörtímabil, ekki bara náttúruverndarlögin heldur vildi hún líka afturkalla lengingu á fæðingarorlofi og gerði það og hún vildi afturkalla umbætur í skattkerfinu með þrepaskatti og er á vegferð í þá áttina. Hún hefur yfirleitt reynt að afturkalla flest af því sem til framfara horfði en ekki alveg tekist í öllum tilfellum.

Það er svolítið merkilegt að eftir þennan mikla titring, þessi stóru orð og þessi miklu læti skuli vera lagt fram frumvarp sem er vissulega margar greina en felur í raun og veru ekki í sér mjög merkilegar breytingar. Það eru fáein atriði.

Ég tel rétt að taka fram að við í Samfylkingunni tökum þannig á móti þessu frumvarpi að það er okkar vilji að reyna að finna sameiginlega niðurstöðu í þessu máli, sem allir geta unað við. Það þýðir ekki að minni hlutinn lúti í einu og öllu vilja meiri hlutans heldur verði fundnar leiðir sem eru til þess líklegar að setja náttúruna í forgang. Þetta mál þarf að ræða mjög ítarlega í nefnd og fara vel yfir það og fá gesti og afla upplýsinga. Við munum leggja okkar af mörkum til að þessi vinna verði sem best úr garði gerð.

Það eru tvö atriði sem ég hef sérstakar áhyggjur af og við í Samfylkingunni. Það eru í raun veigamestu breytingarnar sem boðaðar eru í þessu frumvarpi. Það er annars vegar ákvæðið um sérstaka vernd og hins vegar ákvæðið um varúðarregluna. Þetta eru tvö grundvallarmál í þessum lögum, grundvallarmál í réttinum sem þessi löggjöf fjallar um, rétti náttúrunnar. Í lögunum er kveðið á um það að sérstök vernd skuli ná til ýmissa fyrirbrigða en það var lagað í þeirri löggjöf sem við ræðum hér til þess að tryggja betri vernd fyrir sérstök náttúrufyrirbæri. Í núgildandi lögum er þessi vernd alls ófullnægjandi og hefur í raun ekki veitt það skjól sem fólk kynni að telja að þau hefðu átt að geta veitt, samanber lagatextann, en svo hefur ekki verið. Þetta var fært til betri vegar í þessari löggjöf en nú á að draga úr því án rökstuðnings í greinargerð. Það má segja að ákvæðið verði, með þeim breytingum sem hér eru boðaðar, í raun ónýtt og hagsmunir náttúrunnar þar með fótumtroðnir.

Hitt ákvæðið sem ég vil tala um er varúðarreglan sem samkvæmt nýju náttúruverndarlögunum á að verða meginregla í náttúruréttinum. Nú á að draga úr því og síðan á að setja reglugerð um gildistökuna. Nýju lögin eru í samræmi við ákvæði í norrænni löggjöf en í þessu frumvarpi er verið að hverfa frá því og hverfa frá því einkenni á þessari löggjöf að horfa til framtíðar, að sýna þá stórmennsku að standa með náttúrunni gegn þeim öflum sem hafa alltaf vilja óhindrað veita framkvæmdagleði sinni farveg á kostnað náttúrunnar.

Þessi reglugerðarákvæði finnst mér mjög loðin og skrýtin og mjög furðulegt að taka svo mikið grundvallarmál og gera það að reglugerðaratriði fyrir ráðherra. Ég hlýt að spyrja ráðherra hvort fyrir liggi drög að slíkri reglugerð. Það er auðvitað nauðsynlegt, af því þetta er svo alvarleg breyting, að drög að reglugerðinni verði lögð fram í nefndinni svo hægt sé að fara yfir hvað er í raun verið að gera varðandi varúðarregluna.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að einmitt sérstaka verndin og varúðarreglan sé grundvöllurinn að vilja núverandi ríkisstjórnar til þess að breyta þessari löggjöf og svo sé ýmislegt annað tínt til í leiðinni en þetta séu í raun og veru stóru málin og leiðangurinn sé farinn út af þeim. Þetta er eitthvað sem truflar mjög framkvæmdaglaða karla. Nú er ég mjög framkvæmdasinnuð kona en ég tel að Íslendingar séu almennt búnir að fá nóg af framkvæmdum sem farið hefur verið út í án þess að sést hafi verið fyrir og nokkrum árum síðar komið í ljós að bæði aðgerðirnar og framkvæmdirnar hafi verið óhagkvæmar og ekki síður hafi þær stórskaðað íslenska náttúru með óafturkræfum hætti. Varúðarreglan og sérstaka verndin er leið til þess að draga úr þeirri áhættu. „Afturkallarnir“ vilja náttúrulega ekki slíka varúð því að það hindrar framgöngu þeirra í alls kyns atriðum sem þeim finnst voða sniðug en okkur hinum finnst ekki jafn sniðug.

Þrátt fyrir stór orð mín um þessi tvö atriði þá ítreka ég að við göngum til þessa verks með opnum huga, tilbúin til að leita bestu lausna en þá verðum við líka að treysta því að við séum öll í liði með náttúrunni og séum að vinna að hag náttúrunnar og komandi kynslóða en ekki verktakavina.