145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Frumvarpið er endurflutt frá síðasta þingi en það var afgreitt frá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins 6. maí 2015. Tekið hefur verið tillit til ýmissa þeirra athugasemda og breytingartillagna sem fram komu í nefndarálitum meiri hluta og minni hluta nefndarinnar við endurskoðun frumvarpsins og mun ég koma inn á þær breytingar í framsögu minni.

Frumvarpið felur í sér að lögfest verði gerð heildstæðrar stefnumarkandi áætlunar vegna uppbyggingar innviða í náttúru Íslands vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Markmið frumvarpsins er að móta stefnu, samræma og forgangsraða tilhögun um slíka uppbyggingu og viðhald til ferðamannastaða, ferðamannaleiða, á Íslandi.

Umræðan um ferðaþjónustu og ferðamennsku hefur verið fyrirferðarmikil að undanförnu og kallað hefur verið eftir stefnumótun á sviði uppbyggingar innviða í náttúru Íslands. Mikil þörf hefur skapast á slíkum aðgerðum enda hefur fjöldi ferðamanna vaxið gríðarlega hratt á undanförnum árum með tilheyrandi álagi á náttúru Íslands og sögustaði.

Ánægjulegt er að erlendir gestir sýna óspilltri íslenskri náttúru mikinn áhuga og hafa kannanir ítrekað sýnt að náttúran er það sem helst dregur ferðamenn til landsins og innlenda ferðamenn út um allt land.

Þá hafa kannanir sýnt hvað erlenda ferðamenn varðar að næst á eftir náttúrunni kemur menning og saga landsins sem eitt helsta aðdráttaraflið. Ferðaþjónustan er nú orðin einn af burðarásum íslensks atvinnulífs og bendir allt til þess að vöxtur greinarinnar muni halda áfram á næstu árum en umferð um náttúruna hefur talsverð áhrif sem okkur ber að taka alvarlega. Á sama tíma hefur ferðamannatíminn breyst, hann bæði byrjar fyrr og teygir sig lengra fram á haustið. Samhliða því hefur orðið meira framboð af vetrarferðamennsku, mikill vöxtur hefur orðið í áhuga Íslendinga á útivist og stunda nú þúsundir manna náttúrutengda útivist að staðaldri, svo sem fjallgöngur, gönguferðir og reiðhjólaleiðir.

Gera má ráð fyrir því að uppbygging verði mikil á svæðum í nágrenni við höfuðborgarsvæðið í nánustu framtíð sem teygir sig í ríkara mæli inn í dreifbýli á komandi árum og komi til með að auka fjölbreytni starfa í bæjum sem áður höfðu eingöngu lífsviðurværi sitt af landbúnaði og sjávarútvegi. Því er brýn þörf fyrir markvissa stefnumörkun í greininni sjálfri og aðgerðum til að tryggja að uppbygging og aukinn ferðamannastraumur komi ekki niður á þeim verðmætum sem eru fólgin í landi okkar og að Ísland haldi sérstöðu sinni og aðdráttarafli.

Stefna í ferðaþjónustu þarf því að haldast í hendur við náttúruvernd til að nýting lands til ferðamennsku sé sjálfbær. Við markaðssetningu áfangastaða þarf að taka tillit til viðkvæmrar náttúru og stuðla að samfélagslegri ábyrgð til að upplifunin verði eins og lagt var af stað með.

Fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins eru jafnframt meðal dýrmætustu náttúruperlna þess, oft og tíðum friðlýst svæði með hátt verndargildi, auk þess sem mikilvægar menningarminjar laða að sér ferðamenn. Friðlýst svæði eru nú þegar 114 talsins og ná yfir 20% af flatarmáli landsins. Á sama tíma hafa aðeins verið gerðar um 13 stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir svæðin og eru náttúruminjar undir miklu álagi sem vex með hverju árinu.

Í frumvarpi til laga um náttúruvernd er kveðið á um að tillaga að stjórnunar- og verndaráætlunum skuli liggja fyrir innan 12 mánaða frá gildistöku friðlýsingar. Þessar áætlanir munu nýtast við forgangsröðun verkefnisstjórnar. Þetta frumvarp sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir að heildstæð stefnumarkandi áætlun um vernd og uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum verði til. Slík langtímaáætlun er mikilvæg til þess að hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem ber að vinna, skilgreina fjárþörf, forgangsraða verkefnum, fylgja á eftir framkvæmdum, tryggja hagkvæmni og vinna að skilgreiningu nýrra svæða.

Það má nefna að fyrir ári síðan kynnti OECD umfangsmikla úttekt á stöðu umhverfismála í landinu. Þar er fjallað mikið um álag á náttúruna í ferðaþjónustunni og hvernig hægt sé að bregðast við því og samræma betur stefnumörkun ferðaþjónustu og umhverfismála. Er þetta frumvarp mjög í þeim anda sem þar var bent á.

Þegar frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi var gert ráð fyrir því að þriggja ára verkefnaáætlanir yrðu lagðar fyrir þingið í formi þingsályktunartillagna. Í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er hins vegar lagt til að því verði breytt á þann veg að í stað þess að leggja fyrir þingið þingsályktunartillögu muni áætlunin verða kynnt fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þingsins áður en hún tekur gildi.

Í frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir í dag hefur þessi breyting verið gerð á frumvarpinu en rökin fyrir slíkri breytingu voru einkum þau að uppbygging innviða vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar er ekki slíkt verkefni að það kalli á aðkomu Alþingis í formi þingsályktunartillagna, bæði til þriggja og 12 ára.

Við umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd voru viðruð þau viðhorf að erfitt yrði fyrir svo fjölmenna verkefnisstjórn sem var gert ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi að vinna að heildstæðri langtímastefnumarkandi landsáætlun. Í stað þess er í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar lagt til að verkefnisstjórn verði samansett úr fulltrúum ráðherra ferðamála, þjóðlendumála og menningarminjamála og fulltrúa sveitarfélaga. Þar að auki verði sett á laggirnar ráðgjafarnefnd með opinberum stofnunum, félagasamtökum og öðrum hagsmunaaðilum. Ráðgjafarnefndin mun koma að stefnumótun og framtíðarsýn og verða verkefnisstjórn til ráðgjafar og samráðs við undirbúning tillagna að 12 ára stefnumarkandi landsáætlun. Þessi breyting hefur nú verið gerð á frumvarpinu og er hún lögð til til að koma í veg fyrir að starf verkefnisstjórnarinnar verði þungt í vöfum.

Halda skal því til haga að frumvarpið kveður áfram á um að verkefnisstjórn skuli viðhafa samráð við opinberar stofnanir, stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga, félagasamtök og aðra hagsmunaaðila auk almennings. Einnig er gert ráð fyrir, til samræmis við álit minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, að þær opinberu stofnanir sem fara með umsjón þeirra svæða komi beint að gerð áætlunar með verkefnisstjórninni.

Frumvarpið tekur til innviðauppbyggingar með opinberum stuðningi á landinu öllu óháð eignarhaldi. Þannig er lagt upp með að svæði í eigu hins opinbera, þar með talið innan þjóðlendna, eigi sjálfkrafa aðild að áætluninni og sveitarfélög geri tillögu um þau svæði sem staðsett eru innan marka þeirra sem eru í einkaeigu og kjósa að eiga aðild að áætluninni. Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið í landinu og því verður að teljast eðlilegt að þau séu miðlægur aðili í ákvörðunartöku um hvaða svæði fari inn í áætlunina. Það tryggir jafnframt samræmingu við skipulagsvinnu þeirra.

Í þessu samhengi má einnig benda á að ekkert landsvæði í einkaeigu mun falla undir áætlunina nema viðkomandi landeigandi samþykki það. Því tengdu vil ég nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerðir verði samningar við landeigendur einkalands sem hafa samþykkt að láta svæði í sinni eigu falla undir áætlunina, þiggja opinberan stuðning og halda löndum sínum opnum fyrir gjaldfrjálsri umferð eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og reglugerðum. Landeigendum er þó ávallt heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu. Hér er eingöngu verið að reyna að tryggja að ekki verði farið í sjálfstæða innheimtu aðgangsgjalda á þeim svæðum þar sem ríkið kemur að uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til að stuðla að því að framkvæmdir sem styrktar eru af almannafé nýtist í almannaþágu.

Að lokum er í ákvæði til bráðabirgða kveðið á um að ráðherra skuli innan sex mánaða frá samþykkt frumvarpsins, í samráði við aðila sem eiga fulltrúa í verkefnisstjórn og þá ráðherra er fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál, leggja fram og birta opinberlega áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum sem gildi til 1. janúar 2018.

Ljóst er að þörf fyrir uppbyggingu er gríðarlega mikil og ekki er hægt að bíða þangað til fyrsta verkefnaáætlunin hefur tekið gildi. Ef gert er ráð fyrir að tillaga til þingsályktunar um 12 ára áætlun taki gildi árið 2017 með samþykki Alþingis er ljóst að fjármunir verða ekki veittir til þessa verkefnis fyrr en við fjárlagagerð það ár eða fyrir árið 2018. Framkvæmdir á grundvelli áætlunar gætu því í fyrsta lagi hafist það ár.

Ég tel að til að tryggja verndun viðkvæmrar náttúru og menningarminja sem liggja undir skemmdum sökum ágangs af völdum ferðamanna og útivistar sé nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir sem fyrst.

Nú langar mig, með leyfi forseta, að lesa skýringu við 32. gr. frumvarpsins um náttúruvernd, ekki er það nú orðið að lögum, sem við vorum að ræða hér rétt áðan:

„Í 32. gr. er lagt til að stjórnunar- og verndaráætlun friðlýstra svæði skuli einnig fjalla um þá uppbyggingu sem talin er þörf á innan viðkomandi svæðis, ekki síst vegna nýtingar ferðaþjónustu, svo og verndaraðgerðir. Með auknum fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim hefur skapast gífurleg þörf á uppbyggingu innviða í náttúrunni, til verndar henni og þeim menningarminjum sem þar er að finna. Eðlilegt er að í stjórnunar- og verndaráætlun friðlýstra svæða, sem er það tæki sem Umhverfisstofnun mun nota til að stuðla að verndun svæðis, sé kveðið á um uppbyggingu sem nauðsynlegt er að ráðast í til að verndargildi svæðis sé ekki í hættu. Að sama skapi er eðlilegt að stjórnunar- og verndaráætlun feli í sér hvaða verndaraðgerðir æskilegt er að ráðist verði í til þess að tryggja að verndargildi svæðis haldist.“

Þannig fléttum við saman þessi tvö frumvörp, eðlilega, því að bæði snúast um náttúru landsins.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.