145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta mál er nú lagt fram í annað sinn og það er dálítið í öðrum félagsskap en síðast því að þá var það eiginlega lagt fram samhliða frumvarpi um náttúrupassa, sem er ekki samferða að þessu sinni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, kannski fyrst og fremst vegna þess að stofnun sem heyrir undir eða til embættis ráðherrans er Skipulagsstofnun og ég er þá dálítið á svipuðum slóðum og hv. þm. Vilhjálmur Árnason. Þar er fjallað um utanumhald og framkvæmd skipulagsáætlana á öllum stigum, þar með talið landsskipulagsstefnu.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að í umsögn Skipulagsstofnunar frá því í fyrra kemur fram að Skipulagsstofnun telur að styrkja þurfi umtalsvert orðalag til að mynda í 4. gr. frumvarpsins, að nauðsynlegt sé að þar komi fram ákvæði sem kveði á um að við gerð fjögurra ára verkefnaáætlunar, þeirrar sem getið er í því ákvæði, verði sérstaklega tekið tillit til þess sem kemur fram í skipulagsáætlun viðkomandi sveitarfélaga. Ég sé ekki að frumvarpið hafi verið uppfært með tilliti til þeirrar athugasemdar. Það sama gildir um ákvæði sem kveða á um að við gerð landsáætlunar verði tekið tillit til þess sem kemur fram í landsskipulagsstefnu þar sem orðið æskilegt er notað í almennum athugasemdum með frumvarpinu, en það er skýrt kveðið á um það að sveitarfélögum beri að taka mið af þessari sömu landsskipulagsstefnu í stefnumörkun sinni.

Ég spyr því (Forseti hringir.) ráðherrann hvort ekki hafi verið horft sérstaklega til þessarar samræmingar við uppfærslu frumvarpsins í meðförum ráðuneytisins.