145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verði þessu frumvarpi vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar þá verður það í góðum höndum. Ég heyri að þingmaðurinn er með ágætishugleiðingar og jafnvel um það hvernig við getum gert þetta enn betur úr garði.

Verkefnisstjórnin, sem getið er um, á náttúrlega að vera nokkurs konar samræming, að kalla til og samræma hlutina. Við höfum trú á að þetta bæti og sérstaklega að þarna sé ákveðið hlutverk, ákveðið ferli, sem á eingöngu að taka til uppbyggingar náttúrunnar, að það sé þá komin einhver verkefnisstjórn sem hafi það að leiðarljósi og til samræmingar. En ég deili algjörlega þeirri hugsun með þingmanninum að komið er að þeim tímapunkti að (Forseti hringir.) við eigum líka að hugsa um gæðin á uppbyggingu.