145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fáum við ekki að endurtaka ballið aftur frá síðasta vetri? Eru menn ekkert að grínast hérna? Þetta er svo ótrúleg staða sem kemur hér upp ítrekað og hverju ætla menn að ná fram með þessu? Menn vilja átök. Menn höfðu það svo náðugt í sumarfríinu að þeir ákveða að þetta gangi nú ekki lengur og nú þurfi að henda í eina átakaköku. Sú kaka var bökuð í morgun.

Virðulegi forseti. Þessi málaflokkur heyrir undir umhverfis- og samgöngunefnd. Atvinnuveganefnd hefur ekkert með það að taka upp svona umræðu sem er eingöngu til þess gerð að grafa undan faglegri nefnd, faglegri verkefnisstjórn rammaáætlunar, án samráðs að minnsta kosti við ráðherrann og umhverfisnefnd sem fer með þennan málaflokk. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að forseti geri hlé á þessum fundi, það verði kallað til fundar þingflokksformanna og farið yfir verksvið málefnanefnda þingsins. Þetta gengur ekki.