145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við erum kannski að leggja hérna upp í annan vetur þar sem vinnubrögð formanns atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, verða að stórfelldu og sjálfstæðu vandamáli hérna í þingstörfunum. Ég hélt að hv. þingmaður hefði orðið sér nægjanlega til skammar í fyrra og bakað nægan ófrið hér, en hann hyggst hefja sama leikinn.

Nú hefur ráðherra lýst því yfir að hún styðji vinnu verkefnisstjórnar og verkefnisstjórn fái vinnufrið og hún muni engar tillögur leggja fyrir þingið fyrr en verkefnisstjórn hefur lokið sínum störfum. Nei, þá fer hv. þm. Jón Gunnarsson af stað og kallar inn í atvinnuveganefnd aðila sem eru auðvitað á sviði umhverfisráðherra og þá bara úr orkugeiranum. Það er hans sýn á eðlileg vinnubrögð í þessu máli. Auðvitað er hv. þingmaður hér að vega að hæstv. umhverfisráðherra umfram alla aðra sem fer með þennan málaflokk og hefur gefið yfirlýsingar um það hvernig hún hyggist standa að málum. (Forseti hringir.) Á bara að láta hv. þingmann ganga svona lausbeislaðan áfram? Er ekki hægt að setja að minnsta kosti múl upp í hann?