145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg með ólíkindum að heyra hér málflutning fólks, alveg hreint með ólíkindum, og hvaða skítkast menn eru komnir í, persónulega skítkast eina ferðina enn. Þau komast ekki upp úr þessu forarsvaði, sumir hv. þingmenn, virðulegi forseti. Þingið ákvað að senda þetta mál til atvinnuveganefndar. Það var ekki ákvörðun nefndarinnar. Það var þingið sem ákvað það og það er nefndin sem hafði þetta til umfjöllunar en ekki umhverfisnefnd.

Það er búið að taka undir þau sjónarmið og boða að það verði boðaður fundur með öðrum aðilum, en við tókum 70 aðila á fund nefndarinnar til að fjalla um þetta í fyrra. Við getum ekki tekið Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd út fyrir sviga í því, þá verðum við að boða sveitarfélögin og ferðaþjónustuna og alla hina hagsmunaaðilana líka (Gripið fram í.) til þess að gæta jafnræðis. Við munum halda slíka fundi ef óskað er eftir því.

Erum við að tefja ferlið? (Forseti hringir.) Er það virkilega svo að einhverjir þingmenn hér í salnum, (Forseti hringir.) ég bið þá að rétta upp hönd, vilja að ferlið haldi áfram (Forseti hringir.) í ágreiningi, bullandi ágreiningi um að verið sé að brjóta lög, það sé ekki verið að fara að lögum? Er það ekki eftirlitshlutverk þingsins (Forseti hringir.) að sjá til þess að framkvæmdarvaldið framfylgi þeim lögum sem við setjum?