145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er mjög hugsi yfir stöðu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem og því að hér skuli hún ekki njóta stuðnings stjórnarmeirihlutans í umræðunni um fundarstjórn forseta. Hún hefur lýst fullu trausti á sína verkefnisstjórn. Hún hefur lýst því hversu mikilvægt það er að verkefnisstjórn rammaáætlunar fái að ljúka vinnu sinni, fái að ljúka ferlinu og koma tillögu til ráðherra á grundvelli gildandi laga. Af hverju finnur stjórnarmeirihlutinn sig í því að grafa skipulega undan trúverðugleika síns eigin ráðherra? Og af hverju kemur fulltrúi Framsóknarflokksins, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, og tekur þátt í því að grafa undan ráðherra Framsóknarflokksins? Hvers konar eiginlega stemning er þetta, virðulegur forseti, gagnvart umhverfismálum og ráðherra þess málaflokks?