145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ber fullkomið traust til umhverfis- og auðlindaráðherra, svo það sé sagt. Það þarf ekkert að vera að ýja að því að svo sé ekki. Það er hins vegar eitt varðandi þennan fund sem menn þurfa að hafa í huga, ákvörðunin um þennan fund í morgun var tekin á fundi atvinnuveganefndar af nefndinni allri. Það komu engar athugasemdir fram af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar um að þessi fundur yrði haldinn. Það var tekið tillit til þeirra óska minni hlutans að fundurinn yrði opinn fjölmiðlum. Það fannst okkur alveg sjálfsagt og ég endurtek það sem ég var að segja áðan, fundurinn var haldinn og til hans var líka boðið ráðuneytisstjórum til þess að upplýsa nefndina um gang mála, til þess að hreinsa andrúmsloftið, til þess að fá heildarmyndina þegar orkufyrirtækin voru búin að gera athugasemdir við starfsemi verkefnisstjórnarinnar. Hvað er að því, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, að hreinsa andrúmsloftið og fá allar upplýsingar (Forseti hringir.) upp á borðið? Eru menn eitthvað á móti því að allar upplýsingar liggi fyrir?