145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:56]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að sú umræða sem hefur átt sér stað undir liðnum um fundarstjórn forseta sýni að það verður að breyta einhverju í sambandi við þessa ágætu löggjöf. Hún er ekki í lagi. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði að þriðja árið í röð væri ríkisstjórnin að efna til ófriðar og að þriðja árið í röð deildu menn hér um þessa rammaáætlun. (KaJúl: Væru að tefja.) Nei, hæstv. forseti, eru menn búnir að gleyma átökunum á seinasta kjörtímabili? Eru menn búnir að gleyma því þegar síðasta ríkisstjórn tók þetta mál úr þeim faglega ferli sem það hafði verið í? Þá var rammaáætlun, þessi löggjöf og allt þetta ferli sem var sett upp, gleymum því ekki, til að ná sátt um vernd og nýtingu — á seinasta kjörtímabili var vikið frá þessu og það hryggir mig (Gripið fram í.) — leyfið mér að klára. (Forseti hringir.) Það hryggir mig, virðulegur forseti, að ekki megi halda fund til þess að ræða það hvernig í ósköpunum við getum reynt að ná saman um þessi mál án þess að hlutirnir fari á hvolf.

Ég bið menn um að biðja hv. þm. Jón Gunnarsson að halda annan fund þar sem öll þessi sjónarmið koma fram vegna þess að það er markmiðið. (Forseti hringir.) Ég styð hv. nefndarformann og nefndina alla fyllilega í því (Forseti hringir.) að reyna að leiða þetta mál til lykta.