145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[11:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmanni sem talaði á undan mér. Hæstv. umhverfisráðherra kom með mjög skýra yfirlýsingu í upphafi þings um að hún teldi mikilvægt, rétt eins og hér var rætt á síðasta þingi, að gefa verkefnisstjórn svigrúm til að ljúka sinni vinnu. Þess vegna boðaði hún engar breytingar á þessu þingi heldur sagði mikilvægt að gefa málinu þann tíma sem það þyrfti þannig að hægt væri að ljúka vinnu við það og að ekki yrði haldið áfram að efna til ófriðar um málið.

Ég held að það sé þingsins að líta í eigin barm. Hér hafa menn talað um að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við fundarboðunina. Það kom áðan fram hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, varaformanni nefndarinnar, að ekki væri tekið tillit til athugasemda hennar þannig að sannanlega voru gerðar athugasemdir. (JónG: Það er rangt.) Við skulum líka átta okkur á því að þegar rætt er um að málið hafi verið sent til hv. atvinnuveganefndar af þinginu var það bara meiri hluti þingsins. Auðvitað voru gerðar verulegar athugasemdir við það á sínum tíma að málið skyldi ekki sent til hv. umhverfisnefndar. (Forseti hringir.) Raunar var þá, herra forseti, talað um að skipta rammaáætlun í tvennt, að hún ætti heima í tveimur nefndum. Ég held að þingið þurfi að fara yfir þetta og tek undir með þeim sem hér hafa sagt að það sé ástæða til að ræða þetta … (Forseti hringir.)