145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[11:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil bara gera athugasemd við ummæli hv. 2. þm. Reykv. s. sem gerir hér ráð fyrir því að um leið og einhver fer að tala um fundarstjórn, nefndastörf eða því um líkt sé það sjálfkrafa málþóf og sjálfkrafa efnisleg umræða. (Gripið fram í.) Hvorugt er tilfellið. Hér eru menn að tala um í hvaða nefnd málið hafi farið og hver aðdragandi þeirrar ákvörðunar var. Hér hafa menn nefnt að þetta hafi verið fundur sem var opinn fréttamönnum, sem ég tel reyndar gott, upplýsingasöfnun og hvernig nefndastarfi sé háttað. Þetta er það sem hefur verið rætt, hér hefur engin efnisleg umræða átt sér stað svo ég hafi heyrt og ég hef verið hér allan tímann. Sömuleiðis hafa fyrst og fremst stjórnarliðar farið fram yfir tímann hér sem bendir til þess að þetta sé eitthvað sem fólk vill ræða.

Það væri nær lagi ef hv. 2. þm. Reykv. s. færi að átta sig á því að þetta púlt er til þess að ræða málin og þegar fólk er ósátt þá ræðir það það. (Gripið fram í.) Það er sjálfsagt, til þess er liðurinn.