145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[11:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta á að ræða fundarstjórn forseta en ekki efni mála svo ég segi það einu sinni enn.

Hér hefur komið fram að á síðasta þingi hafi rammaáætlun verið rædd í marga daga. Það er rétt. En í fimm heila vinnudaga var líka talað undir liðnum um fundarstjórn forseta á meðan rammaáætlun var á dagskrá þingsins. Er það ekki eitthvað sem við þurfum að athuga? Um leið og orðið rammaáætlun ber á góma í þingsal er þessi dagskrárliður misnotaður ásamt öðrum dagskrárliðum. Það sem ég er að fara fram á, og er nú ekki stór bón, er að hv. þingmenn haldi sig við dagskrá þingsins og innan þess ramma sem okkur (Forseti hringir.) er settur með þingsköpum og ræðum málin sem ræða á um undir dagskrárliðunum.