145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[11:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef setið undir þessari umræðu um fundarstjórn forseta og hef ekki heyrt neitt efnisatriði um rammaáætlun, ekki eitt. Hér hefur verið talað um nefndastörfin, hér hefur verið talað um framgöngu hv. formanns atvinnuveganefndar og hér hefur verið talað um eðli fundarins og til hvers fundir séu, hvort menn séu á móti því eða með að safna upplýsingum eða hverja skuli boða á fundi. Það er það sem hefur verið rætt hérna. Það er eðlilegt að fólk ræði slíka hluti undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Mér finnst orðið mjög þreytandi hvernig hv. 2. þm. Reykv. s. lætur eins og að í hvert einasta sinn sem fundarstjórn forseta er rædd sé það sjálfkrafa málþóf. Það undirstrikar vonandi ekki viðhorf hv. þingmanns til þess hvað það þýðir að ræða ágreiningsmál yfir höfuð. Það lítur út fyrir það að hv. þingmaður vilji einfaldlega alltaf ráða.