145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

samgönguáætlun, afkoma sveitarfélaga.

[11:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Fyrst vegna spurningar hv. þingmanns um væntanlega samgönguáætlun þá mun samgönguáætlun til fjögurra ára verða lögð fram fyrir þingið núna á haustmánuðum. Hún þarf að taka breytingum frá þeim drögum sem lögð voru fram í vor vegna fjármuna sem eru settir í samgöngumál í fjárlagafrumvarpi ársins 2016. Mér finnst skynsamlegt að sú samgönguáætlun sem lögð verður fram, fjögurra ára áætlunin, beri keim af því hvaða fjármunir eru til ráðstöfunar á komandi ári. Jafnframt verður lögð fram hér 12 ára samgönguáætlun. Ég held að nú í vetur gefist okkur miklu rýmri tími til að ræða samgöngumál en gafst á síðasta þingi og það er náttúrlega af hinu góða.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi hér og varðar afkomu sveitarfélaganna þá er það stórt málefni í innanríkisráðuneytinu. Við höfum auðvitað með sveitarfélögin að gera þótt við séum ekki í fjárhagslegum samskiptum á þann hátt sem fjármálaráðuneytið er. Það er alveg augljóst mál að þegar stórir málaflokkar hafa verið færðir til, eins og hv. þingmaður þekkir sjálfur sem fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, þá hefur kostnaðurinn sem á sveitarfélögin hefur fallið orðið meiri en hann var þegar ríkið hafði viðkomandi verkefni með höndum, hvernig sem á því stendur. Það kann að skýrast að hluta til af því að þegar verkefni eru komin nær borgurum og sveitarfélögunum þá verður ríkari vilji til að veita nánari þjónustu en þegar ríkið er með málefnið þannig að það hefur haft þessar afleiðingar í för með sér. Ég tel að það sé mjög skynsamlegt að ríki og sveitarfélög ræði saman um þá stöðu sem upp er komin. Ég get sagt fyrir mitt leyti (Forseti hringir.) sem innanríkisráðherra að ég styð það að slík umræða fari af stað.