145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

kjarasamningar lögreglumanna.

[11:23]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægður með að heyra að hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir því að þetta mál komist til lykta og hvet hana eindregið til þess að láta sig málefni lögreglunnar og lögreglumanna varða.

Um þessar mundir er til umfjöllunar í menntamálanefnd skýrsla sem varðar framtíðarfyrirkomulag menntunar lögreglumanna og það er margt sem er þar á dagskrá. Samfélagsbreytingar gera kröfu um að þeir vinni með mörgum öðrum sviðum samfélagsins, að það séu heildrænar lausnir í málum, nægir að nefna heimilisofbeldi og málefni fjölskyldna þar sem gerðar eru sífellt auknar kröfur til lögreglumanna um aðra nálgun en þeir hafa kannski fengið tækifæri til að tileinka sér.

Ég hvet innanríkisráðherra til þess að fylgja þessu máli eftir.