145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

fjármögnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

[11:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að velta upp nokkrum spurningum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Við vitum að þessi málaflokkur hefur því miður verið í vandræðagangi allt of lengi og ekki liggur enn fyrir hvernig hann verður fjármagnaður.

Nú eru áætlaðar í fjárlagafrumvarpi 149 millj. kr. til sjóðsins og áætlað að innheimta gistináttagjald á næsta ári upp á 270 millj. kr. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvort það liggi eitthvað fyrir um varanlega fjármögnun á þessum sjóði því að verkefnin eru ærin og mikil þörf fyrir innviðauppbyggingu þegar stefnir á næsta ári í komu 1,3 milljóna ferðamanna.

Ég vil spyrja ráðherra hvort hún telji að endurskoða megi það fyrirkomulag að króna komi á móti krónu þegar sótt er um í sjóðnum. Það virðist vera að ekki hafi verið hægt að koma fjármagni út sem skyldi og má spyrja hvort fyrirstaðan sé sú að þeir sem sækja um þurfa að leggja fram fé á móti.

Við vitum að það framlag sem kom í vor fór eingöngu í uppbyggingu opinberra ferðamannastaða. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvað henni finnist fjárlögin vera í því sem snýr að fjármögnun samgangna í landinu, hvort ekki vanti mikið upp á til að mæta þeim mikla fjölda ferðamanna sem fer um landið og hvort skortur á fé til samgangna sé ekki í hrópandi mótsögn við aukinn fjölda ferðamanna til landsins.