145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

fjármögnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

[11:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aðeins út af fyrri spurningu hv. þingmanns þar sem vikið var að samgöngumálum. Það er alveg rétt að við þurfum að auka fjármuni í það og höfum verið að gera það. Ég minni á að núna í vor voru settir 1,8 milljarðar kr. sérstaklega til vegagerðar á svokölluðum ferðamannavegum þannig að við erum að bæta þar úr. En eins og ég sagði áðan þá er ekki nóg að bæta við fjármunum, við þurfum að bæta skipulagið. Núna erum við að leggja lokahönd á viðamikla stefnumótunarvinnu sem við höfum verið að vinna að allt síðasta ár með Samtökum ferðaþjónustunnar og með ferðamálastjóra. Sú vinna hefur farið fram vítt og breitt um landið. Þar blasir við, án þess að ég sé að upplýsa um niðurstöður þessarar vinnu, að það sem skortir á er samræmd stjórnsýsla. Það er samræming á vegum ríkisins, milli ríkis og sveitarfélaga og greinarinnar sjálfrar. Það munu koma fram tillögur til úrbóta í því efni og ég hlakka til að geta kynnt þá stefnu hér fyrir þingi og þjóð (Forseti hringir.) þannig að við getum séð hvernig við getum í sameiningu unnið betur að þessum málum í framtíðinni.