145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

uppbygging ferðamannastaða.

[11:40]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt hjá hv. þingmanni að það er einmitt hlutverk framkvæmdasjóðsins að tryggja öryggi á ferðamannastöðunum og vernda náttúruna fyrir mögulegum ágangi og eins að vernda náttúruperlurnar sem við viljum að ferðamennirnir njóti. Mér vitanlega hefur ekki verið gerð slík heildstæð úttekt og ég tek þetta sem fína ábendingu inn í þá vinnu sem fara mun fram í framhaldi af samræmingunni um stefnumótunina sem ég talaði um áðan. Ég útiloka þó ekki að slíkt hafi verið gert en vegna þess hversu stjórnsýslan er flókin koma nokkur ráðuneyti þarna að málum. Umhverfisráðuneytið fer með yfirumsjón staðanna sem eru í eigu ríkisins, þjóðgarðanna. Síðan eru það sveitarfélögin. Síðan ber innanríkisráðherra formlega ábyrgð á öryggismálunum. Ég er ekki að reyna að víkja mér undan spurningunni, en það er einmitt það sem við höfum rekið okkur á að við þurfum að laga í þeirri mikilvægu vinnu sem við erum að ljúka núna. Við þurfum öll að vera með það á hreinu hvað það er sem okkur er ætlað að gera. Ef einhver annar gerir það þurfum við að vera viss um að við göngum í takt, það er markmiðið með þessu.

Ríkið hefur hins vegar tekið af skarið að miklu leyti með aukafjármagni sem runnið hefur í sjóðinn, annars vegar varðandi ríkisstaðina með því að tryggja fjármagn í þá staði sem þarfnast uppbyggingar, en ríkið hefur líka komið til móts við sveitarfélögin, t.d. í fyrra þegar mótframlagskrafan var tekin út, til þess að sveitarfélögin gætu gert úrbætur án þess að þurfa að leggja fram mótframlag. Vandamálið er bara að hönnunin, undirbúningurinn og skipulagið og það sem ég fór yfir í síðustu fyrirspurn, hefur tafið fyrir uppbyggingunni, þar með talið (Forseti hringir.) varðandi öryggismálin.