145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

132. mál
[12:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég verð að taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að það er nauðsynlegt að ræða þennan risastóra málaflokk hér á þingi, sér í lagi í ljósi þess að nú hafa komið upp tillögur varðandi kjaraviðræður um að það verði ofið enn frekar saman við lífeyrissjóðina og launahækkanir þannig að það fari í gegnum lífeyrissjóðakerfin. Ég held að það sé mjög brýnt og ég skora á hv. þingmann að halda áfram að reyna að koma þessari umræðu inn í þingið. Það er spurning hvort kalla ætti eftir skýrslu eða einhverju áþekku til að koma umræðunni hér inn og fá nánari upplýsingar um stöðuna og framtíðarsýn nákvæmlega. Sú framtíðarsýn má ekki verða pólitískt bitbein heldur þarf hún að ná yfir þjóðarhagsmuni. Ég hef verulegar áhyggjur af stöðunni og er í það minnsta búin að telja sjálfri mér trú um að ég muni aldrei nokkurn tíma fá lífeyri miðað við hvernig staðan er í dag og hvernig stjórninni í kringum sjóðina á hinum opinbera markaði er oft háttað. Maður þarf ekki að leita lengra en aftur til ársins 2008 til að rifja upp að þá var ýmsu ábótavant.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann telji að best sé að koma þessari umræðu inn í þingsal.