145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:12]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Þessi tillaga er efnislega samhljóða tillögu sem við fluttum í lok mars á þessu ári en fékkst ekki rædd á Alþingi og er í samræmi við ályktun landsfundar Samfylkingarinnar frá í mars um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum.

Núna eru tvö ár síðan við í þingflokki Samfylkingarinnar lögðum fyrst fram tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Það er tímanna tákn og satt að segja sorglegur vitnisburður um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum að enn séu á lista yfir bráðaaðgerðir í húsnæðismálum sem við erum að leggja fram núna, aðgerðir sem voru í upphaflegri þingsályktunartillögu haustið 2013 og hefur verið vel tekið í af hálfu margra stjórnarliða. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt að svo lítið hafi orðið úr gerðum stjórnarmeirihlutans á kjörtímabilinu í húsnæðismálum að enn sé ástæða til að leggja fram mál til úrlausnar brýnum húsnæðisvanda tveimur árum eftir að þau komu upphaflega fram og það þrátt fyrir að stjórnarliðar hafi tekið vel í þau í umræðu.

Húsnæðismálin eru í algjöru öngstræti núna. Nýlegar skýrslur benda til þess að leiga hafi hækkað um meira en 40% á síðustu árum að jafnaði. Við heyrum öll sögur af því og kannanir staðfesta það að húsnæðiskostnaður fólks á lágum tekjum hefur aukist verulega. Á meðan verður ekki vart við neinar raunverulegar framkvæmanlegar tillögur af hálfu stjórnarflokkanna til úrlausnar í þessum efnum, en menn halda stöðugt áfram að gefa stórar yfirlýsingar um afnám verðtryggingar eða einhverjar slíkar aðgerðir sem þó engar efndir er hægt að sjá á og ekkert raunverulegt frumkvæði af hálfu ríkisstjórnarinnar á sama tíma og brýn úrræði sem hægt er að ráðast í verða ekki að veruleika.

Þessi tillaga er, virðulegi forseti, í níu liðum sem ég mun fara yfir stuttlega á eftir en það er mikilvægt að muna að rannsóknir sýna að leigjendur eru líklegri til að vera í fjárhagsvandræðum en aðrir þjóðfélagshópar og börn leigjenda eru líklegri en önnur til að búa við fátækt og skorta efnisleg gæði. Það er brýn þörf á að byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi sem kemur til móts við fólk sem ræður ekki við markaðskjör á húsnæði og getur í núverandi kerfi hvorki fest kaup á húsnæði né leigt. Þessi hópur býr við allt of háan húsnæðiskostnað sem hlutfall af tekjum og það er mjög brýnt að búa til kerfi sem getur gefið fólki færi á að ná fótfestu á húsnæðismarkaði með einhverjum hætti þannig að fólk geti borið eðlilegan kostnað af húsnæðinu í samræmi við tekjur.

Margt af því sem þarf að gera er langtímaaðgerðir en ég ætla að fara yfir þessar bráðaaðgerðir sem hægt er að ráðast í strax og mikilvægt að ráðast í strax.

Í fyrsta lagi leggjum við áherslu á nýtt kerfi húsnæðisbóta sem sameini eldri kerfi vaxtabóta og húsaleigubóta. Það er mjög mikilvægt til að eðlilegur leigumarkaður fái þrifist að það verði búið til slíkt samræmt kerfi húsnæðisbóta, enda fullkomlega óeðlilegt að mismuna fólki í húsnæðisstuðningi eftir því hvaða búsetuform það velur sér. Við teljum þess vegna mikilvægt að taka vel í það fyrsta skref sem ríkisstjórnin hefur nú boðað um aukin framlög til húsaleigubóta og að þær fari ofar upp tekjustigann, en nú eru þær eiginlega bara bundnar við fólk á allra lægstu tekjum. Það er mikilvægt að fólk á meðaltekjum njóti líka húsaleigubóta. Í þessu samhengi er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri öfugþróun sem á sér nú stað í stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem hún hefur ekki látið skerðingarmörk vaxtabóta fylgja verðlagi. Þar af leiðandi er það að gerast að fleiri og fleiri í meðaltekjuhópi og efri meðaltekjum detta út úr vaxtabótakerfinu algjörlega að ófyrirsynju. Húsnæðisstuðningur við fólk á ekki að vera lágtekjustuðningur. Hann á ekki að vera einungis við þá allra verst settu. Það er grundvallarþörf að koma sér þaki yfir höfuðið og ríkisvaldið á að styðja við húsnæðisöflun og greiða niður húsnæðiskostnað fólks. Þetta er sérstaklega mikilvægt í landi eins og Íslandi þar sem vaxtastig er að jafnaði miklu hærra en í nágrannalöndunum og ríkið verður að leggja af mörkum til að brúa það bil ef venjulegt launafólk, þá sérstaklega lágtekjufólk, á að eiga kost á því að greiða af húsnæði á markaðskjörum.

Það felst í því mjög hættuleg stefna sem ríkisstjórnin hefur markað, eða fjármálaráðherrann öllu heldur og Framsóknarflokkurinn látið yfir sig ganga, að tæra vaxtabæturnar upp með þeim hætti sem nú stefnir í. Þeim hefur alltaf verið ætlað að vera bætur vegna húsnæðisstuðnings til alls þorra landsmanna, ekki bara þeirra lakast settu. Það felst í því mikil stefnubreyting ef ríkisvaldið ætlar ekki að koma að stuðningi við húsnæðisöflun venjulegs fólks.

Virðulegi forseti. Í 2. tölulið þessara tillagna leggjum við til þá breytingu sem við höfum nú satt að segja gefist upp á að bíða eftir að ríkisstjórnin finni hvöt hjá sér til að leggja fram í sjálfstæðu frumvarpi. Við höfum þess vegna lagt fram samhliða þessari þingsályktunartillögu beint frumvarp til laga sem undanþiggi tekjur einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti og tryggi að þær tekjur skerði ekki heldur bætur almannatrygginga. Við erum búin að leggja þetta fram í tillöguformi síðustu tvö árin. Við lögðum þetta fram í kosningabaráttunni 2013 og þá var þessu sérstaklega hrósað af núverandi hæstv. forsætisráðherra. Það sýnir verkleysi ríkisstjórnarinnar og dugleysi hennar í húsnæðismálum að jafnvel svona einföld breyting, sem er einföld skattalagabreyting, verður ekki að veruleika. Við höfum viljað styðja ríkisstjórnina til góðra verka og höfum þess vegna ekki flutt um þetta sérstakt frumvarp fyrr en nú og það er vegna þess að við teljum alveg fullreynt að hún finni hjá sér hvöt til að grípa til aðgerða af þessum toga. Þetta er mikilvæg bráðaaðgerð og getur fjölgað íbúðum, getur strax hvatt aldrað fólk sem býr í stóru húsnæði til að hólfa það niður til útleigu og leigja út frá sér. Það gæti gripið að hluta til á þeim bráðavanda sem við er að etja núna. Samhliða þarf auðvitað að grípa til ýmissa annarra aðgerða, auðvelda fólki að nýta sér Airbnb og aðra slíka möguleika til þess að leigja til ferðamanna yfir sumarið til þess að draga úr þörfinni fyrir byggingu á hótelum og þar með líka að hjálpa okkur öllum að takast á við ferðamannakúfinn á sumrin. Það er ekki gott ef íbúðir sem hafa verið í útleigu og hafa til dæmis verið aðgengilegar námsmönnum hætta að vera til almennrar útleigu, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Við leggjum líka til í þriðja lagi að fjármálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra leggi fyrir Alþingi lagafrumvarp um að fólk sem er að kaupa íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn og tekjulágu fólki verði veitt viðbótarlán með ríkisstuðningi til að fjármagna kaupin. Við viljum auka mögulegt lánshlutfall. Frá 1999 til 2003 var við lýði takmarkað kerfi viðbótarlána upp í 90% fyrir tekjulága einstaklinga og þá sem voru að kaupa íbúð í fyrsta sinn. Það gekk mjög vel. Vanskil af þeim lánum voru minni en af almennum útlánum Íbúðalánasjóðs. Það var síðan sú ranghugmynd að halda að það væri hægt að dreifa þessu til allra og láta alla taka 90% lán án vandræða sem reyndist óframkvæmanleg en meðan framboð 90% lána var bundið við þennan afmarkaða hóp reyndist það mjög vel.

Ríkið þarf að leggja af mörkum að þessu leyti. Við þurfum að hugleiða með hvaða hætti við viljum greiða niður þessi lán. Það eru efnisleg rök fyrir því að vera með vaxtastuðning við tekjulágt fólk og þá sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn til að það fólk fái fótað sig á húsnæðismarkaðnum.

Staðan í dag er sú að leiga lítillar íbúðar í Reykjavík er næstum því tvöfalt hærri en afborgun af 40 ára verðtryggðu láni vegna kaupa á sömu íbúð. Ef ungt fólk fær að koma fætinum á þrepið til sjálfsbjargar mun það í flestum tilvikum klára sig af því að borga af láninu. Spurningin er bara: Hvernig ætlum við að pakka því inn og gera fólki það mögulegt að komast í að kaupa? Þetta er þar af leiðandi mikið réttindamál.

Við munum vegna reynslu okkar af þessari ríkisstjórn ekki sitja auðum höndum í þessum efnum. Við í Samfylkingunni munum vinna að því á næstu mánuðum að þróa sjálf hugmyndir í kerfi af þessum toga. Ég held að það sé fullreynt að bíða eftir frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Annars ætti það að virka sem hvatning til ríkisstjórnarinnar að vita að við munum sjálf vinna að þessu líka.

Við leggjum til í fjórða lagi að fjármálaráðherra leggi fyrir Alþingi á haustþingi frumvarp til laga um bundna húsnæðissparnaðarreikninga sem veiti skattafslátt til kaupa á fyrstu íbúð eða búseturétti.

Gallinn við núverandi kerfi ríkisstjórnarinnar um séreignarsparnaðinn er að í fyrsta lagi á ekkert að blanda séreignarsparnaði við kaup á íbúðum, það er bara tvennt ólíkt, og mikilvægt óháð öllu öðru að fólk safni í séreignarsparnað. Vandinn við núverandi kerfi er sá að bara þeir sem eru á vinnumarkaði geta búið sér í haginn. Fólk sem kemur úr námi og ætlar að kaupa sína fyrstu íbúð er algjörlega sett út á guð og gaddinn í núverandi kerfi. Við verðum að hafa kerfi sem hvetur fólk ekki til að fara út á vinnumarkaðinn áður en það lýkur námi. Í orði kveðnu þykist þessi ríkisstjórn vilja stemma stigu við brottfalli úr framhaldsskólum. Það eru sannarlega ekki góð skilaboð til ungs fólks að segja að eina leiðin til að kaupa íbúð sé að fara á vinnumarkaðinn 18 ára. Það mun ekki vinna gegn brottfalli úr framhaldsskólum. Þess vegna skiptir máli að styðja við ungt fólk þannig að það muni njóta fyrirgreiðslu og skattafslátta í öðru formi en bara í gegnum þessa séreignarsparnaðarleið.

Í fimmta lagi gerum við ráð fyrir að fjármálaráðherra bjóði ónýttar lóðir ríkisins fram til byggingar minni leiguíbúða. Það hefur verið mikið vandamál að fá ríkið til þess að axla sína ábyrgð á þessum vanda. Ríkið kemur núna með tillögur um að sveitarfélögin leggi af mörkum til byggingar leiguíbúða, leggi lóðir ókeypis, en ríkið heimtar toppverð fyrir allar lóðarspildur sem ríkið á og ekki hefur verið byggt á. Af hverju? Af hverju er það ekki hlutverk ríkisins að leggja þessar spildur fram endurgjaldslaust? Ég held að það sé verðugt verkefni fyrir fjármálaráðherra að fara yfir lóðasafn ríkisins að þessu leyti.

Við gerum ráð fyrir að gerð verði grein fyrir því endurmati á byggingarreglugerð sem þegar hefur farið fram, til að greiða fyrir byggingu minni og ódýrari íbúða, og áætlun um frekari skref í því efni. Það er mikilvægt að halda áfram að einfalda byggingarreglugerð og gera það mögulegt að nýta til fulls kosti hugvits eða hönnuða til að byggja ódýrt til að fólk geti fengið ódýrar fyrstu íbúðir.

Við gerum ráð fyrir breytingu á reglum um það þak sem er gagnvart sveitarfélögunum til kaupa á félagslegum íbúðum og að skuldir sveitarfélaga vegna kaupa á félagslegum íbúðum verði ekki taldar til almennra skulda sveitarfélaga. Það eru fordæmi fyrir því, samanber þegar við heimiluðum sveitarfélögum sem voru skuldsett að ráðast í byggingu hjúkrunarheimila. Hér er um að ræða lögbundin verkefni sveitarfélaga, húsnæðismálin, sem mikilvægt er að styðja sveitarfélögin í að taka myndarlega á.

Við gerum síðan ráð fyrir því líka að niðurgreiðsla vaxta verði ekki bundin við Íbúðalánasjóð heldur líka möguleg hjá öðrum lántökum eða ef sveitarfélög afla sér fjár sjálf.

Að síðustu gerum við ráð fyrir að gengið verði frá samkomulagi við sveitarfélögin um veitingu stofnstyrkja þar sem ríkið (Forseti hringir.) komi að málum og leggi fram stofnstyrki til þess að greiða fyrir byggingu leiguíbúða. Vísi að þessu má sjá í samþykkt aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar frá því í vor en fjárframlög í fjárlögum eru langt frá því fullnægjandi til að gera það sem þarf í þessu efni.