145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:30]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þarna þurfum við að rata meðalveg. Það tókst ekki við breytingarnar á byggingarreglugerðinni 2012. Það voru allt of ríkar hönnunarkröfur hvað varðaði til dæmis einangrun og ýmsa þætti sem voru allt of kostnaðarsamar. Þegar við horfum til baka held ég að það hafi skort mikið á að raunverulega hafi verið leiddir að borðinu allir okkar færustu sérfræðingar til að leita leiða til þess að tryggja almannahag og sem best jafnvægi að þessu leyti. Við búum mörg í áratugagömlu húsnæði, allt að 100 ára gömlu húsnæði, jafnvel eldra, sem tryggir ekki aðgengi fatlaðra en lifum ágætislífi í því. Það er síðan mjög mikilvægt að tryggja í vaxandi mæli möguleika fólks á að eiga íbúð alla ævi. En það eru líka mikilvæg mannréttindi að ungt fólk geti fengið að eignast 30–50 fermetra íbúð, búa í henni um hríð og selja hana ef aðstæður breytast og fólk annaðhvort stofnar fjölskyldu eða aðgengismál breytast með öðrum hætti.

Það er mjög stórt skref tekið ef við segjum að allt húsnæði alls staðar undantekningarlaust sem byggt er verði að fullnægja öllum aðgengiskröfum. Ég er ekki sannfærður um það og enginn hefur getað sannfært mig um að það sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í nágrannalöndum okkar. Ég held þess vegna að við eigum að fara yfir þetta með okkar bestu sérfræðingum og vanda vel til verka. Við þurfum að fá skýrslu frá umhverfisráðherra um þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar sem ég veit að hafa að mörgu leyti verið til góðs og ekki gengið gegn þeim mikilvægu hagsmunum sem hv. þingmaður réttilega nefnir um aðgengi allra. Síðan þurfum við líka að skoða hversu langt við teljum okkur mögulegt (Forseti hringir.) að ganga í þá átt að einfalda og gera byggingu lítils húsnæðis ódýrari og einfaldari.