145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmanni til upprifjunar tók frumvarp um ný mannvirkjalög sem fór í gegnum Alþingi nokkrum breytingum í meðförum Alþingis þar sem umhverfis- og samgöngunefnd lagði mikla áherslu á að byggingarreglugerð tæki sérstaklega mið af sjónarmiðum um aðgengi fatlaðra þannig að þingið kvað í raun og veru sterkar á en umhverfisráðuneytið hafði gert í uppleggi sínu til þingsins. Sú leiðsögn sem var höfð að leiðarljósi þegar verið var að setjast yfir nýja byggingarreglugerð kom frá Alþingi, þ.e. þessar ríku kröfur.

Ég verð að segja að það er enn þá alveg nóg af stöðum á Íslandi sem við getum bent á sem eru ekki aðgengilegir fyrir fólk sem býr við hreyfihömlun án þess að við þurfum beinlínis að hnika til nýrri byggingarreglugerð. Það var mikill léttir fyrir Öryrkjabandalagið og þá sem búa við hreyfihömlun af einhverju tagi. Við hv. þingmaður deilum þeirri sýn að það sé mikilvægt að fólk geti búið lengur í sínu húsnæði, geti búið þar helst alla ævi. Það eru líka þau sjónarmið sem höfð voru að leiðarljósi við breytingu á byggingarreglugerðinni. Það sem Öryrkjabandalagið er núna að gera þegar það kemur á fund þeirra nefnda sem hafa með aðgengismál að gera er að horfa til eldri bygginga, til opinbers rýmis og opinberra bygginga, vegna þess að það segir að nýbyggingareglugerðin sé komin fyrir vind. Þar erum við að minnsta kosti örugg.

Nágrannalönd okkar hafa sagt að fyrstu viðbrögð í bransanum séu alltaf þau að þetta sé allt of dýrt. Síðan erum við með góða hönnuði og flott fagfólk sem með aðlögun að nýjum kröfum getur fundið ódýrari lausnir en samt uppfyllt fullar kröfur með það að leiðarljósi að samfélagið búi yfir aðgengi fyrir alla.