145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er orðið virkilegt vandamál og er mjög slæmt að framboð á húsnæði sé ekki í takt við þörfina og aukna atvinnu á mörgum stöðum á landsbyggðinni og áhuga fólks á að setjast þar að. Þess vegna held ég að það sé brýnt að hrinda einhverjum slíkum aðgerðum fljótt af stað. Við vitum að á mörgum þessara staða er húsnæði sem Íbúðalánasjóður á. Hann hefur haldið að sér höndum með að fara út í einhverjar lagfæringar og annað sem hefur kannski þurft endurbætur til þess að það húsnæði standi til boða sem leiguhúsnæði á þessum stöðum. Því miður hefur það ekki verið og Íbúðalánasjóður hefur auglýst til sölu húsnæði sem hann á úti á landi. Það hefur ekki mikið komið út úr því og í einhverjum tilfellum hafa fasteignafélög keypt slíkt húsnæði sem síðan stendur óhreyft. Fasteignafélag, kannski í Reykjavík, á það, keypti það fyrir lága fjárhæð en gerir ekkert með það. Það er pattstaða. Vissulega eru sveitarfélög víða brennd af félagslega kerfinu vegna þess að það galt fyrir það að það varð atvinnubrestur vítt og breitt um landið og fólk flutti í burtu. Það skipti sköpum að fá þessar félagslegu íbúðir vítt og breitt um landið á sínum tíma því að annars hefði fólk ekki getað sest þar að og búið, fólk sem hélt uppi atvinnu á þeim svæðum. Svo breyttust tímarnir og það er spurning hver olli því að atvinnubrestur varð.