145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil rétt eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu sem snertir, eins og hér hefur komið fram, miklu fleiri svið samfélagsins en yfirskriftin gefur til kynna, sem er samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

Við erum í fyrsta lagi að tala um ráðstöfun opinbers fjár, sem við eigum alltaf að láta okkur varða og alltaf að fara yfir, hvort við séum að beina í réttan og uppbyggilegan farveg. Ekki síður erum við tala um þá staðreynd að það hefur áhrif á miklu meira en beinlínis mjólkurframleiðsluna hvert þeim stuðningi er beitt. Það hefur áhrif á þá þætti sem hér hafa verið nefndir, stærð búa til að mynda.

Höfum við skoðun á því hvort við viljum hafa eitthvert þak á því hvert stuðningnum er beint? Á þetta einfaldlega að vera eining á móti lítra eða ætlum við að hafa það með öðrum hætti? Ætlum við að láta stuðninginn hafa áhrif á þróun byggðar í landinu? Er það líka sjónarmið sem við þurfum að skoða?

Hér hafa lítið verið nefnd þau sjónarmið sem lúta að vistvænum búskap. Það eru sjónarmið sem vaxið hefur ásmegin í allri umræðu um landbúnað og matvælaframleiðslu víða um heim. Það eru þættir sem þarf líka að koma inn á. Við höfum nefnt hér erfiðleika að því er varðar kynslóðaskipti í greininni og það eru líka mikilvæg sjónarmið.

Ég fagna þessari umræðu og tel einboðið, miðað við undirtektir hæstv. ráðherra, að umræðuna um einhvers konar þak þarf að taka. Það þarf að nálgast málefnið þannig að menn komist að einhverri skynsamlegri niðurstöðu í þeim efnum.